Hreindýrasteik

Ég er hefðarkona þegar kemur að mat.  Sérhver hátíðisdagur á sinn rétt og frá því verður helst ekki vikið.
Á Skírdag er alltaf léttur kjötréttur, hreint kjöt, sem íslensk jörð hefur alið af sér.
Í gær var Skírdagur og eins og vant er skyldi maturinn vera kjöt, magur vöðvi, léttsteiktur og bakaður, borinn fram með grænmeti og sósu.  Með því að brúna kjötið fyrst og baka síðan í stutta stund verður kjötið mjúkt og safaríkt. 
Þar sem ég er svo lánsöm að eiga börn sem eru lagtæk til veiða, hvort heldur er sjávarfang eða landdýr, áskotnaðist mér hreindýravöðvi sem notaður var í tilefni dagsins.

Hreindýravöðvi


hráefni:
700 gr hreindýravöðvi
smjör til steikingar
salt
pipar

Salti og pipar er nuddað í vöðvann.  Kjötið brúnað í smjöri á pönnu, sett í eldfast fat og bakað í ofni við 200°C í 15-20 mín. eftir stærð vöðvans.  Kjötið tekið út úr ofninum og látið standa um stund áður en það er sneitt niður í hæfilega þykkar sneiðar.

sósan:
soð af kjötinu
rauðvín

Þegar búið er að brúna kjötið á pönnunni er vatni helt á pönnuna til að ná upp steikarskáninni.  Gætið þess að setja ekki of mikið vatn þá verður soðið kraftminna.  Geymið soðið í skál þar til kjötið er bakað takið þá soðið sem komið hefur úr kjötinu við baksturinn og setjið saman við soðið frá pönnunni.
Sjóðið upp á kjötkraftinum, bragðbætið með rauðvíni og kryddi ef þarf.


meðlæti:
blómkál
brokkoli
rósakál (frosið í poka)
gulrætur

Brokkoli- og blómkálshríslur, skornar í hæfilega bita ásamt gulrótunum, sett í pott ásamt frosnu rósakálinu og suðan látin koma upp, þá er grænmetið sett í eldfast fat salti stráð yfir og bakað í 200°C heitum ofninum með kjötinu í 15-20 mín.   Ég nota sér fat fyrir grænmetið.


Skírdagur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Inga, maður á að vera GÓÐUR við dýrin en ekki hræða þau ... og því síður skjóta þau og borða þau. Svo er rauðvín ógeðslega vont á bragðið, finnst mér. Mér líst hins vegar vel á meðlætið þótt ég vorkenni gulrótum alltaf smá.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 11:48

2 Smámynd: Inga Helgadóttir

Sæll Grefill!
Takk fyrir að heimsækja síðuna mína.
Ég er hjartanlega sammála þér, maður á að vera góður við dýrin. 
Við erum skepnur og skjótum öll dýr, líka þessi sem kallast menn.  Reyndar éta flest dýr önnur, einnig við.
Ég er einnig sammála þér með rauðvínið, það er ekkert sérlega gott, enda drekk ég ekki rauðvín, en myndin er af sólberjasaft sem mér þykir algjört lostæti.

Inga Helgadóttir, 2.4.2010 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband