Steiktur fiskur

Á föstudaginn langa hef ég, trúlaus konan, alltaf haft steiktan fisk í matinn og það er einföld ástæða fyrir því. 
Þegar Jesú var tekinn niður af krossinum fór hann og hitti strákana, félaga sína, þeir urðu að vonum hræddir, héldu að þarna væri kominn draugur.  Hann sagði þeim að engin ástæða væri til að óttast þar sem hann væri af holdi og blóði líkt og þeir sjálfir og bauð þeim að snerta sig til að finna það sjálfir.  Þegar þeir snertu hann fundu þeir að hann sagði satt.  Hann spurði þá hvort þeir ættu eitthvað að borða, hann væri svangur og þeir gáfu honum steiktan fisk og hann át hann allan.
Svo það hefur verið sjálfsagt val að borða steiktan fisk á mínu heimili á þessum annars ágæta degi.
Og þannig hefur það verið frá því fyrir 40 árum að ég stofnaði heimili.  Alveg þar til nú að börnin eru orðin nógu gömul til að gera hallarbyltingu og leiða inn nýja siði.  Í þetta sinn fékk ég sveitapaté eða sveitakæfu með öllu tilheyrandi.
Þið fáið uppskriftina af því síðar en nú ætla ég að setja inn gömlu uppskriftina mína af steikta fiskinum.

Doritos


Í fyrstu var um venjulegan steiktan fisk að ræða, í eggi og raspi og með steiktum lauk.  En síðan voru gerðar margar tilraunir og uppskriftirnar breyttust smám saman.  Það eina sem hélt sér óbreytt öll árin var fiskur og steiktur.

hráefni (fyrir 4):
2 ýsuflök meðalstór
2 egg þeytt saman með gaffli
rasp
doritos flögur (american)
laukur
smjör
olía
pipar

Laukurinn steiktur í smjöri og olíu á pönnu og settur til hliðar.  Doritos flögurnar muldar út í raspið, magn fer eftir smekk hvers og eins.  Fiskurinn er roðflettur og skorinn í bita.  Piprað lítillega.  Fisknum velt upp úr hrærðu eggjunum og síðan upp úr raspblöndunni.  Steikt í smjöri og olíu á pönnu.  Gætið þess að nota ekki salt, Doritos flögurnar sjá um að salta.
Ef fáir eru í mat þá set ég laukinn yfir fiskinn ásamt afganginum af eggjunum og fullsteiki fiskinn á pönnunni.  Ef við erum mörg, 6-10+ þá snöggsteiki ég fiskinn á pönnunni og set hann síðan í ofnfast fat ásamt steikta lauknum og egginu, sem ég er búin að bregða á pönnuna, og baka í 180°C heitum ofni í 15-20 mín.

Borið fram með soðnum kartöflum og hrásalati að smekk hvers og eins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband