Ítalskar kjötbollur

Einhverju sinni, þegar börnin mín voru í grunnskóla, komu þau heim úr matreiðslutíma með forláta uppskrift af ítölskum smábollum.  Uppskriftin hefur fylgt mér fram á þennan dag og er oft notuð með alls konar tilbrigðum og tilfærslum.

hráefni (fyrir 4):
400 gr nautahakk
½ pakki púrrulauksúpa
1 egg
1 dl brauðmylsna
2 msk chili sósa (í flösku)
salt
pipar

Allt hráefnið er sett í skál og hrært vel saman, látið standa smástund í ísskáp áður en það er mótað í litlar bollur.
Bollurnar eru annað hvort steiktar í olíu á pönnu eða raðað á bökunarpappír og bakaðar í ofni í 15 til 20 mínútur.
Borið fram með spaghetti og salati.

smábollur


Samkvæmt gömlu uppskriftinni er sósa búin til úr pakka af Toro spaghetti sósudufti, suðan er látin koma upp og bollurnar látnar malla í sósunni um 10 mín.

Ég er löngu búin að breyta sósuuppskriftinni, nota gjarnan tómata úr dós, bragðbæti með tómatsósu (gerir sósunna svolítið sæta) og HP-sósu ásamt öðru kryddi. 
Eða ég bara sleppi algjörlega að gera sósu og nota tómatsósu úr flösku.

Síðar á ævinni tóku þessar bollur margvíslegum breytingum, þær breyttust í partýbollur með því að mylja saman við þær saltkex, þá þarf að sleppa súpunni og saltinu, baka bollurnar í ofni og bera fram með súrsætri sósu. 
Kryddið hefur einnig verið margbreytilegt og helst farið eftir stað og stund og því sem finna má i skápunum mínum þann daginn.
Oft sleppi ég súpunni og bæti við brauðmylsnuna í hennar stað.  Ég bý til mína eigin brauðmylsnu jafnóðum með því að mylja brauðsneið smátt með töfrasprota.

Annars er bara að leggja af stað og gefa sköpunargáfunni lausan tauminn.  Það kemur alltaf eitthvað skemmtilegt út úr því.  Ekki endilega ætt, en alltaf skemmtilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband