Uxahalasúpa

Uxahalasúpa



Bóndinn fékk uxahala í afmælisgjöf, svo við fengum að elda uxahalasúpu í fyrsta sinn á ævinni.  Ekki seinna að vænna. 

Við vorum með einn hala og reyndist það alveg nóg í matinn, fyrir 4, enda vorum við með nóg af heimabökuðu brauði.  Súpan var algjört sælgæti.

Uxahalinn var keyptur beint frá býli, í Matarbúrinu, hjá bóndanum á Hálsi í Kjós, auðratað, keyrt inn Hvalfjörðinn að Laxá í Kjós, þegar komið er yfir brúna er beygt til vinstri, þá er býlið og verslunin á hægri hönd þegar ekið er upp hálsinn.


 

Uxahali



Uxahalasúpa
1 ½ - 2 kíló uxahalar (svona um það bil)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
½ sellerístöngull
50 g smjör eða olía
2 lítrar vatn eða þar um bil
1 msk tómatkraftur (purée)
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:
steinselja
timjan
lárviðarlauf
bundið saman með sláturgarni

1/2 dl. sérrí eða þurrt madeira (ég sleppi þessu alltaf)


Það þarf að gróf hreinsa halabitana ef þeir eru mjög feitir.  Halinn frá Hálsi var hinsvegar vel hreinsaður og búið að höggva hann í hæfilega stóra bita.

Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund til viðbótar.
Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn, svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við.. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.
Bætið við salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín).

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Ég bind kryddjurtavöndinn við handfangið á pottinum svo auðveldara sé að ná honum upp í heilu lagi eftir suðu.


uxahalasúpa og brauð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fást af og til uxahalar í Krónuni,einnig er hægt að pannta þá þar

Helga finnbogadóttir (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband