8.4.2010 | 14:53
Roti flatbrauð
Þessa uppskrift fann ég á blogsíðunni hennar Soffíu Gísla, prófaði hana og fannst hún hreint frábær. Ég mæli eindregið með að þið horfið á þetta myndband um gerð Roti flatbrauðs, þá sjáið þið hversu auðvelt þetta er og bráðskemmtilegt.
Eins og sjá má í uppskriftinni eru þetta einstaklega ódý matur og að sama skapi góður. Brauðin má baka á grilli, pönnu og í ofni.
Ég bý til eigin pizza sósu, nota gjarnan saxaða tómata úr dós, sigta þá mesta vökvann frá, set pressaðan hvítlauk saman við, smá af soyasósu og tómatsósu til að gera sósuna sæta.
Sem fyllingu nota ég pepperoni, rauðlauk og papriku eða skinku, tómata, papriku, og ananas, ost yfir og krydd eftir smekk, annars verður smekkur hvers og eins að ráða.
Flatbrauðin eru afbragðs góð sem brauð með mat en þá eru þau smurð með smjöri.
hráefni (fyrir 4):
1 bolli hveiti (má nota heilhveiti)
örlítið salt
½ bolli vatn
½ tsk olía
Setjið hveiti og salt í skál, blandið volga vatninu saman við og hnoðið síðan þar til deigið er mjúkt og létt.
Skiptið deiginu í um það bil 8 hluta (á stærð við lítinn bolta), fletjið létt með höndunum, veltið upp úr hveiti og fletjið út í þunnar kökur.
Ef deigið festist við hendurnar er olíu strokið á deigið og lófann, þá er auðveldara að hnoða það og fletja út.
Bakið á grilli eða pönnu í nokkrar mínútur, snúið þeim til að þau brenni ekki.
Brauðin blása upp og verða hol að innan, þrýstið létt ofan á þau með steikarspaða. Takið af grillinu / pönnunni, smyrjið með pizza sósu, setjið fyllingu á og ost yfir.
Setjið aftur á grillið / pönnuna þar til osturinn er bráðnaður.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:03 | Facebook
Athugasemdir
Það kemur oft fyrir að ágætar uppskriftir heita mismunandi nöfnum. Þetta ágæta flatbrauð sem þú kallar Roti flatbrauð nefnum við á mínu heimili Nan brauð, stundum kalla ég þetta Indverskt fátækrabrauð því uppruninn er í Indlandi. Við grillum það oftast í bakaraofninum og Nan brauðið með smjöri er einstaklega gott meðlæti með margskonar mat. Á föstudaginn langa komu börn, tengdabörn og barnabörn til okkar í mat of fengu Ungverskt gúllas með Nan brauði. Gæti alveg látið koma fram uppskriftina að gúllasinu, kannski síðar en munið þetta: Ungverskt gúllas er albest ef notað er íslenskt lambakjöt, miklu betra en ef notað er nautakjöt.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 8.4.2010 kl. 22:26
Sæll Sigurður!
Takk fyrir skemmtilegt innlegg í matarumræðuna.
Já það er rétt, uppskriftir geta fengið mörg og margvísleg nöfn.
Ég tengdi kennslumyndband við uppskriftina og þar segir einmitt að þetta sé indverskt flatbrauð en þar er það kallað Roti, þess vegna notaði ég það heiti.
Á sama stað má einnig finna uppskrift af Nan brauði sem mér sýnist vera svolítið þykkara og efnismeira en Roti. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér í Indverskri matargerð til að vita hvað er hvurs og hvurs hvað.
En hvort heldur það heitir Roti, Nan eða annað þá er þetta afbragðsgott brauð og bæði auðvelt og skemmtilegt í bakstri.
Það væri mjög skemmtilegt að fá að sjá uppskriftina að gúllasinu þínu.
Besta gúllas sem ég hef smakkað var bakað af pólskum starfsstúlkum á mínum gamla vinnustað, þær elduðu það fyrir heimilis- og starfsfólk, og það sem gerði það svona sérstakt var m.a. eldunartíminn sem var um þrjár klukkustundir.
Með kveðju,
Inga Hel
Inga Helgadóttir, 9.4.2010 kl. 09:14
Hve margir dl er einn bolli? Ef ég á ad segja eins og er thá er ég á móti thví ad nota bolla sem maelieiningu í uppskriftum.
Mér finnst thad ad nota bolla sem maelieiningu í stad dl vera svipad thví ad tala um gallon eda mílur í stad lítra eda kílómetra.
Forvitinn (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 13:09
Rétt hjá þér Forvitinn og takk fyrir ábendinguna, hjá mér er einn bolli 2 dl og þá hálfur bolli af vatni 1 dl.
Ég er sammála þér um vandann við að umbreyta einni mælieiningu í aðra, hef oft lent í vandræðum með það sjálf, en hér er slóð á vefsíðu sem gott er að hafa við höndina, hún sýnir hvernig umbreyta má mælieiningum.
Kv. Inga Hel
Inga Helgadóttir, 9.4.2010 kl. 14:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.