14.4.2010 | 21:05
Rabarbarasúpa
Fyrst ég var að klára rabarbarann frá síðasta hausti ákvað ég að nota hluta af honum í rabarbarasúpu.
300 g rabarbari
1 líter vatn
125 g strásykur, eða eftir smekk
1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
matarlitur, rauður, (má sleppa)
Rabarbarinn er hreinsaður, skorinn í bita og settur í pott ásamt vatni og sykri. Hitað að suðu og látið sjóða þar til rabarbarinn er orðinn meyr og allur kominn í sundur. Hrært oft á meðan.
Kartöflumjölið hrært saman við lögg af köldu vatni. Potturinn tekinn af hitanum og kartöflumjölinu hrært út í súpuna.
Borin fram með muldum tvíbökum.
Ég sleppi alveg kartöflumjölinu þar sem mér finnst það gera súpuna þykkari og slepjulegri. Auk þess þykknar súpan smám saman við suðu og ef hún er látin sjóða í svolítinn tíma, kannski hálfa klukkusutnd eða svo, verður hún alveg mátulega þykk.
Matarlitur er alveg óþarfur.
Margir vilja minnka sykurmagnið, en súpan yrði sennilega allt of súr við það. Það væri frekar spurning um að nota hrásykur, nú eða púðursykur í stað þess hvíta.
Sumir sía súpuna en ég vil hafa kjöttæurnar með. Ég mauka hinsvegar rabarbarann með gamla kartöflustöppujárninu hennar mömmu eða smelli töfrasprota í súpuna ef mér finnst rabarbarabitarnir of grófir, sem gerist nánast aldrei.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.