Krækiberja allskonar

berin

Þá eru það krækiberin þetta árið.  Hluta af berjunum breytti ég hlaup, krap og líkjör, restina frysti ég í heilu lagi til geymslu.  Finnst gott að gera ekki of mikið hlaup í einu, heldur taka þetta svona smám saman.



Krækiberjakrap:
Er nokkuð fallegra og girnilegra en krækiberjakrap?  Ég hef áður sett inn uppskrift af þessu krapi og gef ykkur því bara slóðina að þeirri uppskrift hér. 

krap

Ég gerði þó eina breytingu þetta árið, ég setti saftina í gömul ísbox sem ég fóðraði með plastpoka, setti ísboxið svo í frysti og hrærði í af og til á meðan krapið var að myndast.  Plastpokinn var varnagli, ef ske kynni að rafmagnið færi af frystinum um nótt án þess ég tæki eftir og krapið næði að þiðna og frjósa aftur, þá yrði saftin að ísklumpi, pokinn gerir mér þá kleift að taka klumpinn í einu lagi og mylja niður í pokanum með kjöthamri eða öðru barefli og þannig gæti ég þá náð mér í mola og mola, af og til, við mismunandi tækifæri.


Krækiberjahlaup:

Hráefni:
1 lítri krækiberjasafi
600 – 8000 gr berjasykur

1 sítróna

Tætið berin í matvinnsluvél eða blandara og sigtið safann frá.  Hellið safanum í pott ásamt sykri og safanum út sítrónunni.  Setjið í hreina krukkur og lokið strax.

krækiber

Það er lítill vandi að minnka uppskriftina ef menn vilja.  Ég notaði 1 lítra af safa í krapið og fékk út úr því 2 tveggja kílóa box af krapi.  En svo er líka allt í lagi að gera meira og setja smá í fallegar gjafakrukkur til að nota sem jólagjafir um jólin.
Það er ekki nauðsynlegt að nota sítrónu, ég geri það bara af gömlum vana.

Ég hef það fyrir sið, þegar ég bý til sultu eða hlaup, að sníða til bökunarpappír sem passar ofan á sultuna eða hlaupið, ég bleyti pappírinn í víni, bara því sem mér hugnast í það og það skiptið, púrtvín eða viskí er gott, legg hann svo ofan í krukkuna og loka.  Þetta gefur sultunni eða hlaupinu mjög góðan ilm og bragðinu mildan en góðan keim.


Krækiberjalíkjör:

Hráefni:
500 gr krækiber
2 dl hlynsíróp
2-3 dl sykur (venjulegur)
1 flaska vodka (730 ml)

Tæta skal berin í matvinnsluvél eða blandara og setja í pott, hratið með.  Hitið varlega og leysið sykurinn upp vökvanum.  Takið pottinn af hitanum og hellið vodkanu út í.  Sigtið lögin og setjið á flöskur. 
Geymið lögin í 2- 3 mánuði áður en þið smakkið á honum.  Líkjörinn geymist a.m.k. í eitt ár.

Þessi uppskrift gefur u.þ.b. tvær 750 ml flöskur eða rétt rúmlega það. 
Ég helmingaði uppskriftina og fékk eina 750 ml flösku af líkjör til að njóta á aðventunni.  Hlakka mikið til.

krækiberjalíkjör


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband