7.4.2010 | 16:44
Flatkökur
Hér á árum áður, þegar ég var að alast upp í föðurhúsum, var ekki það brauðúrval sem nú er, ég man eftir fransbrauði, sem mér fannst afbragðsgott nýbakað og rúgbrauði kallað hverabrauð, sem var sælgæti lagt saman með fransbrauði og miklu smjöri á milli og normalbrauði og það var eiginlega allt og sumt, en samt alveg nóg. Þá bökuðu konur með kaffinu, kökur og brauðmeti, jólakökur, randalínur og flatkökur, gjarnan einu sinni í viku og sumar oftar.
Ég hef nú ekki hugsað mér að taka upp þann sið að baka einu sinni í viku, af og til verður að duga.
200 gr rúgmjöl
100 gr heilhveiti
½ tsk. lyftiduft
½ tsk salt
2 ½ - 3 dl sjóðandi vatn
Rúgmjöl, heilhveiti, lyftiduft og salt hrært saman. Sjóðheitu vatni hrært út í smám saman, þar til unnt er að hnoða deig sem er létt og sprungulaust og klessist ekki við. Deigið er hnoðað vel saman og síðan skipt í bita sem flattir eru út þar til þeir eru um 2 mm að þykkt.
Kökur eru skornar undan diski eða pottloki; þær þurfa að vera álíka stórar og pannan eða eldavélahellan. Pikkaðar með gaffli. Pannan eða eldavélahellan hituð og kökurnar bakaðar við góðan hita þar til komnir eru svartir flekkir neðan á þær, þá snúið við og bakaðir á hinni hliðinni. Settar heitar í plastpoka eða vafðar inn í blautt stykki, annars þorna þær strax og harðna.
Ef farið er nákvæmlega eftir þessari uppskrift og notaðir 3 dl af vatni þá verður deigið létt og sprungulaust og klessist ekki.
Ég baka kökurnar á pönnukökupönnu úr stáli, þær koma ekki síður út en ef þær eru bakaðar á hellu og lítill vandi er að þrífa pönnuna eftir baksturinn.
Ég nota einnig pottlok með loftgati, til að skera út kökurnar. Loftgatið gerir það að verkum að kökurnar losna auðveldlega frá lokinu og þær verða allar jafnar og örlítið minni en pannan.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:00 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir gamlar og góðar uppskriftir er enn eru í góðu gildi.
Sigríður Laufey Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.