Súkkulaðikonfekt

Þegar ég var búin að sigta berin frá bláberjalíkjörnum var ég með í höndunum hráefni sem bragðaðist dásamlega svo ég ákvað að gera úr þeim einhverskonar sælgæti. 

súkkulaði

Eftir dágóða leit á veraldarvefnum fann ég þessa líka frábæru íslensku uppskrift af súkkulaðikonfekti, bæði í máli og mynd, með Bjarna G. Kristinssyni, matreiðslumeistara.  Ég ákvað að nýta mér hana og útbúa konfekt með líkjörsberjum, þið getið séð myndbandið hér.

Ég minnkaði uppskriftina niður í 300 gr. súkkulaði, 150 ml rjóma og 150 gr smjör, ég notaði 2/3 af súkkulaðinu sem kom út úr hrærunni og fékk úr því 50 konfektmola.  Restina ætla ég að geyma smá og hjúpa svo þegar nær dregur jólum.

Þetta heppnaðist vonum framar, þó eflaust megi setja út á útliði er bragðið alveg dásamlegt, súkkulaðið hreinlega bráðnar í munni manns.

Svona er uppskriftin frá Bjarna, horfið svo endilega á myndbandið, það auðveldar og gefur kjark til að prófa sjálfur:

Hráefni:
500 gr. súkkulaði
250 ml rjómi
250 gr smjör (ósaltað)
Krydd að eigin vali eða vínskvetta

Aðferð:
Bræðið súkkulaðið þar til það er rúmlega heitara en meðal heiti pottur, sjóðið upp á rjómanum með kryddi að eigin vali til dæmis vanillu, kanil, stjörnuanís eða te.
Hellið rjómanum rólega út í súkkulaðið og vinnið með sleif eða pískara greiðlega til að binda fituna og þurrefnin, þegar fallegur gljái er kominn á súkkulaðið er smjörinu hrært í litlum bitum saman við og passið að hitinn á súkkulaðinu verður að vera það heitur að smjörið bráðni saman við annars gæti grunnurinn skilið (þá er bara bætt smá rjóma og hrært vel yfir vatnsbaði)

konfekt



Ís með appelsínusafa

Fyrst ég er að deila með ykkur uppskriftinni af heimilisísnum þá ætla ég að bæta við uppskrift af dásamlegum appelsínuís.  Hann er nánast alveg eins og rjómaísinn nema ég sleppi eggjahvítunum og set appelsínu- og sítrónusafa í þeirra stað.  Í þetta sinn skipti ég strásykrinum út fyrir hunang, mér finnst ísinn verða mýkri við hunangið.

appelsínuís

Hráefni
:

2 eggjarauður
1 ½ msk hunang
safi úr einni appelsínu
1 msk sítrónusafi
¼ vanillustöng (má vera dropar)
2 ½ dl rjómi

Þeytið rauðurnar og sykurinn vel saman, skafið kornin úr vanillustönginni og setjið saman við. Bætið appelsínusafanum og sítrónusafanum saman við eggjahræruna.  Þeytið rjómann.
Blandið eggjahrærunni varlega saman við rjómann og hrærið í með sleikju
Hellið blöndunni í ísboxið, setjið lokið yfir og frystið í 3 klst eða svo.  Þetta magn ætti að fylla rúmlega ¾ af boxinu.  Hrærið kannski tvisvar eða þrisvar sinnum í blöndunni á meðan hún er að byrja að frjósa.


Rjómaís

Ég veit fátt betra en ís með rifnu súkkulaði eða bláberjum, sem er náttúrulega bara skrök, því ég veit fátt betra en mat almennt og alltaf, en samt, ís er hluti af því og ég fæ mé oft ís, rjómaís, á kvöldin, með rifnu dökku súkkulaði eða berjum, nema hvorutveggja sé.
Ég nota gamla ísboxið (1 lítri), sem ég fékk í búðinni, það er alveg mátulega stórt. 
Heimagerði ísinn hefur þann megin kost að í honum eru engin aukaefni og ég get ákveðið magnið eftir hendinni, og breytt bragðinu með því að bæta í súkkulaði, appelsínu eða rabarbara, eða öðru, allt eftir því hvernig liggur á mér í það og það skiptið og svo tekur enga stund að búa hann til.

töfrasproti



Hráefni:

2 eggjarauður
2 msk sykur (má vera hunang)
¼ vanillustöng (má vera dropar)
2 ½ dl rjómi


Þeytið rauðurnar og sykurinn vel saman, skafið kornin úr vanillustönginni og setjið saman við.
Þeytið rjómann (ekki stífþeyta).
Setjið allt hráefnið í skál og hrærið saman með sleikju.  Hellið blöndunni í ísboxið, setjið lokið yfir og frystið í 3 klst eða svo.  Þetta magn ætti að fylla rúmlega ¾ af boxinu.

Svona til fróðleiks:
Ég þeyti öll hráefnin í ísinn með pískinum sem fylgdi töfrasprotanum mínum, (sjá mynd) þá er lítið að vaska upp, set hann bara undir rennandi vatn og skola af honum á milli hráefna.  Passa samt að hafa kalt vatn.  Fljótlegt og hentugt.

Ég hef bæði prófað að frysta ísinn beint og bíða þar til hann er tilbúinn og að hræra í á meðan hann er að frjósa. 
Ísinn verður ekkert sérlega fallegur af því að hæra hann, verður svona kurlaður, en það er samt auðveldara að moka honum upp í ísskálina til að borða með rifnu súkkulaði og eða berjum.  Gerist ekki betra.
Til hátíðabrigða er gott að saxa niður Daim súkkulaði og blanda saman við rauðurnar áður en þær eru settar saman við rjómann.
Margir skilja ekki hvíturnar frá rauðunum,heldur þeyta það saman, persónulega finn ég ekki mun á bragði þó eggin séu hrærð í heili lagi saman við sykurinn.

ís




Bláberja allskonar

bláberjarunni

Þá eru það bláberin.  Ég vil helst gera sem minnst við bláberin til að byrja með, læt nægja að lausfrysta þau og nota svo eftir hendinni í heilsudrykki, út á skyr, með ís, í bökur og aðrar kökur og með ýmsum kjötréttum.  Sultur og saftir geri ég svo bara eftir hendinni.

Þetta árið ákvað ég hins vegar að eiga bláberjalíkjör um jólin, svo nú var tíminn til að leggja í hann. 
Mér finnst gaman að leggja í bláberjalíkjör, þetta er afar einfalt og fljótlegt.  Ég geri einungis eina lögun þar sem ég tími ekki að nota meira af berjunum í víngerð.

bláberjalíkjör

Bláberjalíkjör

Maður fyllir hreina krukku af bláberjum, hellir sykri yfir eins mikið og kemst í krukkuna, fyllir hana svo með vodka og setur lokið á. 

Það þarf að hrista krukkuna annað slagið fram í desember.  Þá er vökvinn síaður yfir í fallega flösku.
Einfaldara getur það varla verið.


Bláberjasulta og mauk eru einnig mjög einföld í framkvæmd.  Ég set hérna nokkrar uppskriftir af sultu og mauki.

aðalbláber


Bláberjasulta

500 g bláber
2-3 tsk sítrónusafi
300 gr sultusykur með pektíni

Berin soðin í potti ásamt sykrinum í 15-20 mínútur.  Hrært mjög létt og lítið til að kremja berin ekki um of. Sett í krukkur og lokað strax.


Kryddsulta

200 gr bláber
1 tsk sítrónusafi
1/4 tsk malaður negull
1/2 tsk kanill
4 msk agavesíróp

Maukið bláberin í matvinnsluvél eða blandara í nokkrar sekúndur. Sjóðið öll berin í litlum potti ásamt sítrónusafanum, kryddinu og agave-sírópinu.

Látið bullsjóða í nokkrar mínútur og hrærið vel í á meðan. Hellið í krukku.
Kryddsulta geymist ekki lengi, kannski í rúma viku eða svo.  Hún hentar því vel til að gera í litlu magni og nota við sérstök tækifæri, jól og þess háttar.



Bláberjahlaup

1 lítri bláberjasafi
1 kg sykur – ef notuð eru frosin ber þá sultusykur með pektíni
safi úr 1 sítrónu

Útbúið fyrst bláberjasafa, setjið bláber í víðan pott ásamt svolitlu af vatni, ¾ vatn fyrir hver kíló af berjum.  Látið krauma við vægan hita þar til öll berin eru sprungin. 
Sigtið í gegnum klút. 
Setjið bláberjasafann í pott og látið sjóða í 15 mínútur.  Bætið sítrónusafanum út í. 
Takið pottinn af hellunni og hrærið sykrinum saman við, hrærið þar til sykurinn er uppleystur.  Hellið í hreinar krukkur og lokið strax.


Svo er bara að vera óhræddur við tilraunir, nota krydd og kannski smá whisky lögg, gott sherry tár eða það sem ykkur hugnast best. Þið skuluð í það minnsta sníða til bökunarpappír, vættan í bragðgóðu víni og leggja ofan á sultuna.  Fyrsta og efsta lagið verður alveg dásamleg á bragðið.


Krækiberja allskonar

berin

Þá eru það krækiberin þetta árið.  Hluta af berjunum breytti ég hlaup, krap og líkjör, restina frysti ég í heilu lagi til geymslu.  Finnst gott að gera ekki of mikið hlaup í einu, heldur taka þetta svona smám saman.



Krækiberjakrap:
Er nokkuð fallegra og girnilegra en krækiberjakrap?  Ég hef áður sett inn uppskrift af þessu krapi og gef ykkur því bara slóðina að þeirri uppskrift hér. 

krap

Ég gerði þó eina breytingu þetta árið, ég setti saftina í gömul ísbox sem ég fóðraði með plastpoka, setti ísboxið svo í frysti og hrærði í af og til á meðan krapið var að myndast.  Plastpokinn var varnagli, ef ske kynni að rafmagnið færi af frystinum um nótt án þess ég tæki eftir og krapið næði að þiðna og frjósa aftur, þá yrði saftin að ísklumpi, pokinn gerir mér þá kleift að taka klumpinn í einu lagi og mylja niður í pokanum með kjöthamri eða öðru barefli og þannig gæti ég þá náð mér í mola og mola, af og til, við mismunandi tækifæri.


Krækiberjahlaup:

Hráefni:
1 lítri krækiberjasafi
600 – 8000 gr berjasykur

1 sítróna

Tætið berin í matvinnsluvél eða blandara og sigtið safann frá.  Hellið safanum í pott ásamt sykri og safanum út sítrónunni.  Setjið í hreina krukkur og lokið strax.

krækiber

Það er lítill vandi að minnka uppskriftina ef menn vilja.  Ég notaði 1 lítra af safa í krapið og fékk út úr því 2 tveggja kílóa box af krapi.  En svo er líka allt í lagi að gera meira og setja smá í fallegar gjafakrukkur til að nota sem jólagjafir um jólin.
Það er ekki nauðsynlegt að nota sítrónu, ég geri það bara af gömlum vana.

Ég hef það fyrir sið, þegar ég bý til sultu eða hlaup, að sníða til bökunarpappír sem passar ofan á sultuna eða hlaupið, ég bleyti pappírinn í víni, bara því sem mér hugnast í það og það skiptið, púrtvín eða viskí er gott, legg hann svo ofan í krukkuna og loka.  Þetta gefur sultunni eða hlaupinu mjög góðan ilm og bragðinu mildan en góðan keim.


Krækiberjalíkjör:

Hráefni:
500 gr krækiber
2 dl hlynsíróp
2-3 dl sykur (venjulegur)
1 flaska vodka (730 ml)

Tæta skal berin í matvinnsluvél eða blandara og setja í pott, hratið með.  Hitið varlega og leysið sykurinn upp vökvanum.  Takið pottinn af hitanum og hellið vodkanu út í.  Sigtið lögin og setjið á flöskur. 
Geymið lögin í 2- 3 mánuði áður en þið smakkið á honum.  Líkjörinn geymist a.m.k. í eitt ár.

Þessi uppskrift gefur u.þ.b. tvær 750 ml flöskur eða rétt rúmlega það. 
Ég helmingaði uppskriftina og fékk eina 750 ml flösku af líkjör til að njóta á aðventunni.  Hlakka mikið til.

krækiberjalíkjör


Kartöflur, nýjar, beint úr garðinum

Þá er aftur komið að kartöflunum.  Þær eru fallegar í ár, ekki miklar í magni, en af öllum stærðum og gerðum, hvítar, rauðar og bláar, eitthvað af smælki til að nota í snakk, meðalstórar til að hafa með mat og stórar til að geyma í bakstur.

Þetta árið ætla ég ekki að taka þær allar upp í einu, heldur jafnóðum, eftir hendinni, í matinn hverju sinni og geyma rest í moldinni á meðan ekki frýs á þær.

kartöflur

Ég ætla ekki að setja inn kartöfluuppskriftir í þetta sinn, enda hefur mér yfirleitt reynst best að sjóða þær, steikja eða baka, sem meðlæti með fiski og kjöti og sjóða smælkið sér og strá yfir það salti og smjöri og borða eins og snakk. 

Ég á það nú samt til að nota þær sem sjálfstæða máltíð í brauði og eða sem kartöflugúllas.  Uppskriftin af gúllasinu er þegar komin inn á síðuna, þið getið nálgast 
hana hér. 

  


Uxahalasúpa

Uxahalasúpa



Bóndinn fékk uxahala í afmælisgjöf, svo við fengum að elda uxahalasúpu í fyrsta sinn á ævinni.  Ekki seinna að vænna. 

Við vorum með einn hala og reyndist það alveg nóg í matinn, fyrir 4, enda vorum við með nóg af heimabökuðu brauði.  Súpan var algjört sælgæti.

Uxahalinn var keyptur beint frá býli, í Matarbúrinu, hjá bóndanum á Hálsi í Kjós, auðratað, keyrt inn Hvalfjörðinn að Laxá í Kjós, þegar komið er yfir brúna er beygt til vinstri, þá er býlið og verslunin á hægri hönd þegar ekið er upp hálsinn.


 

Uxahali



Uxahalasúpa
1 ½ - 2 kíló uxahalar (svona um það bil)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
½ sellerístöngull
50 g smjör eða olía
2 lítrar vatn eða þar um bil
1 msk tómatkraftur (purée)
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:
steinselja
timjan
lárviðarlauf
bundið saman með sláturgarni

1/2 dl. sérrí eða þurrt madeira (ég sleppi þessu alltaf)


Það þarf að gróf hreinsa halabitana ef þeir eru mjög feitir.  Halinn frá Hálsi var hinsvegar vel hreinsaður og búið að höggva hann í hæfilega stóra bita.

Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund til viðbótar.
Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn, svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við.. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.
Bætið við salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín).

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Ég bind kryddjurtavöndinn við handfangið á pottinum svo auðveldara sé að ná honum upp í heilu lagi eftir suðu.


uxahalasúpa og brauð


Ciabatta samloka

Stundum langar manni að breyta til og nota eitthvað annað í stað kartaflna eða pasta þá er tilvalið að skella í eina Ciabatta samloku.  Það eru til margar ágæta uppskriftir af Ciabatta brauði en ég kaupi það bara tilbúið úti hjá mínum kaupmanni eða í bakaríinu.

Ciabatta


Hráefni:

2 stk Ciabatta brauð
1 svínalund
beikon
sinnepssósa
rifinn ostur
smjör
olía
salt
pipar
timian
rósmarin


Ég sker lundina niður í lítil stykki sem ég flet út með kjöthamri, krydda með salti, pipar, timían og rósmarin og brúna síðan á pönnu í smjöri og olíu.
Kryddið má alveg vera hvað sem er, eftir smekk hvers og eins.

Á meðan svínalundin er að brúnast, steiki ég beikonið á annarri pönnu.

Þegar hráefnið er tilbúið sker ég brauðið í tvo helminga, smyr helmingana með sinnepssósu, raða svínalundinni ofan á neðri helminginn og svo beikoninu ofan lundina, strái osti yfir og set í 180°C heitan ofninn 5 mínútur eða þangað til osturinn er orðinn gullinn.

Borið fram með sinnepssósu eða þeirri sósu sem ykkur hugnast best.

Ciabatta samloka


Svona til fróðleiks, ég hef prófað önnur hráefni í Ciabatta brauðið og það virðist vera alveg sama hvað mér dettur í hug, það er alltaf jafn gott.

Besta útfærslan sem ég hef fengið af þessu brauði er samt svona;
Ciabatta brauð smurt með sinnepssósu, nauthakk brúnað á pönnu og kryddað að smekk hvers og eins, hakkið sett ofan á brauðið, vel úti látið, laukur saxaður og settur ofan á hakkið og sveppir brúnaðir í smjöri settir ofan á laukinn, osti stráð yfir allt, brauðinu lokað og smá osti stráð ofan á brauðið og bakað eins og fyrr segir.



Lambahryggur allra tíma

Það er kúnst að læra að elda fyrir tvo eftir að hafa haft sex munna og maga til að elda ofan í.  En það lærist smá saman, með smá mistökum hér og þar, of lítið og of mikið á stundum.
Manni hættir til að elda léttara fyrir tvo og þá sleppa stórsteikunum.  Stundum fær maður þó löngun í eitthvað kraftmikið og safaríkt, eitthvað mjög gott, eitthvað í ætt við gamaldags hrygg.  Þá lætur maður það bara eftir sér.

Lambahryggur


Hráefni (fyrir 2+)

Hálfur hryggur (rúmt kíló)
rósmarin (ferskt)
basilíka (fersk)
graslaukur
lambakrydd
salt
pipar
olía


Ég keypti hálfan hrygg, betri hlutann, byrjaði á að rista rákir í fituna svo kryddið ætti greiðari leið að kjötinu, lagði ferskar kryddjurtir, rósmarin, basilíku og graslauk í botninn á steikarpottinum, bara svona nokkrar hríslur af hverju, stráði yfir það lambakryddi og olíu, lagði hrygginn þar ofan á, saltaði og pipraði að mínum smekk, lagði annað lag af ferskum kryddjurtum yfir hrygginn, lokaði pottinum og stakk inn í ofninn við 180 gráðu hita, í tvær klukkustundir.

Þegar hryggurinn var steiktur, setti ég hann á fat og lét standa á meðan ég útbjó sósu úr soðinu.  Ég síaði soðið, setti í pott, bætti við það köldu vatni, jafnaði með Maizena mjöli og bragðbætti með smá sultu og rjóma.

Herlegheitin bar ég svo fram með soðnum kartöflum og gulrótum.  Sykurbrúnaðar kartöflur hefðu komið til greina, en stundum langar mig mest í soðnar, sem ég svo stappa saman með sultu og sósu.  Þá sýð ég meira en nóg svo ég geti fengið smá viðbót af kartöflunum.

Hryggur

Þegar á reyndi urðum við þrjú við matborðið og reyndist hálfur hryggur fyllilega nóg fyrir okkur öll, áttum meira að segja afgang til að narta í fram eftir kvöldi og í hádeginu daginn eftir.


Rabarbarakaka Grétu

Þetta er ein sú allra besta rabarbarakaka sem ég hef smakkað svo ég verð hreinlega að deila henni með ykkur.


IMG_1214

 

Rabarbarakaka á hvolfi  
80-100 gr smjör
150-200 gr sykur
1 egg
½ tsk vanilludropar
150 gr . hveiti
2. tsk. lyftiduft
1/8 tsk salt
1 ¼ dl mjólk
3 msk smjör
2 dl púðursykur
2 bollar smátt skorinn rabarbari 

Bræðið 3 msk af smjöri í kökumótinu, jafnið 2 dl af púðursykur í mótið og þar yfir 2 bollum af smátt skornum rabarbara.
Hrærið smjör og sykur þangað til það er létt og ljóst.  Setjið eggið saman við, ½ í einu, og hrærið vel. 
Hveiti og lyftiduft sett út í eggjahræruna ásamt mjólkinni og vanilludropunum. 

Deiginu helt yfir rabarbarann í mótinu.  Bakað við meðalhita (180°C) í 40-50 mín.  
Hvolft á grind og látið bíða í 2-3 mín.  Borið fram með þeyttum rjóma.


IMG_1220

Það má auðveldlega skipta rabarbaranum út fyrir aðra ávexti, nýja, niðursoðna eða þurrkaða.  Þurrkaða ávexti þarf að bleyta upp í fyrst og sykurmagninu þarf að breyta eftir tegund ávaxta. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband