26.6.2011 | 17:23
Kjöthleifur
Nei, ég er ekki hætt að elda og gera tilraunir í matargerðinni og ekki hætt að taka myndir af árangrinum. En ég hef verið ansi löt að setja uppskriftirnar inn á vefinn, hef verið með hugann við daglega bloggið, ljósmyndirnar og myndböndin.
Ég er samt ekki hætt og ætla að halda þessu áfram, er farin að finna fyrir svolítilli fortíðarþrá, það gerir aldurinn, langar orðið að fara aftur í tímann og taka fyrir gömlu góðu réttina sem voru við lýði þegar ég var að alast upp. Þá fékk maður alltaf aðal- og eftirrétt, held það væri ekki vitlaust að taka það upp aftur, gæti jafnvel verið hollari matur, svo ekki sé talað um ódýrara. En það er síðari tíma verkefni.
Í dag er kjöthleifur í matinn, gamaldags, einfaldur matur, með nútímaívafi, sem má auðveldlega breyta í dýrindis sunnudagsmat.
Kjöthleifur
500 gr nautahakk
½ pk púrrulaukssúpa
½ laukur (saxaður)
1 egg
1. dl mjólk
3 msk tómatsósa
2 msk púðursykur
1 msk gult sinnep
5 beikonsneiðar
salt
pipar
Hitið ofninn í 200 °C. Takið 2 beikonsneiðar og saxið eða klippið smátt geymið hinar 3 til að leggja ofan á kjöthleifinn. Blandið saman hakkinu, lauksúpunni, lauknum, beikoninu, egginu og mjólkinni, ásamt salti og pipar, hnoðið þetta létt saman með höndunum, kjötdeigið verður seigara ef það er hrært saman með þeytara eða í hrærivél. Mótið í aflangt brauð, setjið beikonsneiðarnar ofan á hleifinn og setjið í smurt eldfast mót.
Hrærið saman púðursykrinum, tómatsósunni og sinnepinu og setjið ofan á hleifinn. Bakið í ofni í um það bil klukkustund. Látið standa í 10 mín áður en hleifurinn er sneiddur niður.
Borið fram með kartöflustöppu og rótargrænmeti.
Það má hliðra þessari uppskrift til á ýmsan máta, það er ekkert mál að sleppa lauknum eða bæta við grænmeti, eins og t.d. papriku og sveppum eða ýmsum kryddjurtum.
Það er ekki nauðsynlegt að setja beikonsneiðar ofan á kjötið, ég ímynda mér bara að það geri kjötið safameira.
Sósa er ekki nauðsynleg en þeir sem vilja hafa sósu með þessum rétti geta látið vatn í eldfasta mótið unir lok steikingarinnar og notað kjötsafann sem sósugrunn, gott er að bragðbæta sósuna með súputening og setja smá rjóma saman við í lokin.
Þetta er alveg óheyrilega góður matur og um að gera að prófa sig áfram, gera þetta að hvunndagsmat til skiptis við sunnudagsmat með mismunandi hætti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2011 | 15:03
Plöntur og spírur
Það er lítill vandi að sækja sér tómatplöntufræ í íslensku tómatana, kirsuberjatómatarnir eru besti, fyrst og fremst vegna stærðarinnar og hversu auðvelt er að rækta þá í gluggakistu, það sama á við um paprikuna. Maður tekur úr þeim fræin, kemur þeim fyrir í lítilli skál með botnfylli af vatni og leyfir fræjunum síðan að spíra vel áður en maður flytur þau í smápotta til ræktunar.
Efri smámyndin af fræjunum hér fyrir ofan sýnir fræ úr kirsuberjatómötum og neðri myndin fræ úr venjulegum, íslenskum tómötum.
Það er betra að hafa lítið vatn svo fræin fái nýtt vatn daglega, nauðsynlegt er að fylgjast með vatnsmagninu og gæta þess að vatnið gufi ekki allt upp.
Myndin hér fyrir ofan sýnir spírur af sinnepsfræi, þær bragðast ekkert líkt sinnepi en eru engu að síður bragðgóðar.
Spírur eru ekki einungis góðar í salatið eða einar sér heldur geta þær einnig verið uppfullar af steinefnum. Þannig eru sesamfræ auðug af kalki, magnesíum, járni, zinki, B1-vítamíni, kopar og mangani.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.1.2011 | 12:56
Hvítlauksgras
Þegar græn grös eru farin að vaxa upp af hvítlauksgeirunum í ísskápnum er um að gera að stinga þeim annað hvort í vatn eða beint í mold og leyfa þeim vaxa. Grösin eru fyrirtaks krydd, klippið grösin eftir þörfum, saxið smátt og setjið út í ýmsa rétti. Grasið er bragðmikið, sambland af hvítlauk og venjulegum gulum lauk.
Svona til frekari fróðleiks:
Ef ég set hvítlauksrifið í vatn þá er nóg að setja rótarkerfi ofan í vatnið. Ég nota gjarnan lítið glas til þessa og gæti þess að vatnið þorni ekki upp. Þegar ég sting því í mold þá læt ég það alveg ofan í moldina, þannig að einungis grasið stendur upp úr og vökva reglulega.
það er einnig hægt að rækta nýjan hvítlauk með því að setja rif í mold, það tekur að vísu drjúgan tíma fyrir nýjan lauk að myndast og þar sem ég er frekar óþolinmóð þá hef ég hingað til látið grösin nægja.
Matur og drykkur | Breytt 19.1.2011 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.10.2010 | 10:07
Steinselja
Þá er steinseljan komin í hús tilbúin til geymslu. Uppskera varð dágóð, hef sjaldan eða aldrei sé jurtina svona stóra og fallega og ilmurinn eftir því góður.
Ég hef bæði heyrt mælt með og á móti þurrkun, margir telja það henta prýðilega aðrir segja jurtina missi lit og bragð við þessa aðferð.
Sjálf frysti ég steinseljuna og veit að hún heldur bæði lit og bragði við það.
Það má saxa hana niður í smápoka til að taka fram eftir þörfum. Ég tek hins vegar hríslurnar í búnt, þvæ og læt þorna smá áður en ég set þær í heilu lagi í plastpoka og inn í fyrsti. Þegar hríslurnar eru frosnar tek ég pokann og rúlla honum upp og myl steinseljuna í hæfilega grófa mylsnu. Ég tek steinseljuna síðan úr pokanum og set í ísbox, finnst þægilegra að geta stungið hendinni ofan í box og sótt mér handfylli í súpur, pottrétti og sallöt.
Það má að sjálfsögðu nota þessa geymsluaðferð á steinseljuna sem menn kaupa úti í búð. Margir sleppa að nota hana þar sem afgangurinn er of mikill og vill skemmast, þá er bara að skola, frysta og mylja það sem afgans er og eiga til síðari tíma.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2010 | 12:12
Ýsubitar með núðlum
Stundum nenni ég ekki að fara í búðir og gríp þá til þess ráðs að nota það sem til er í húsinu. Í þetta sinn átti ég frosna ýsubita, gulrætur, papriku, rauðlauk og hvítlauk og ákvað að útbúa eitthvað á Wok pönnuna og hafa fiskinn í orly deigi.
hráefni:
2 lítil ýsuflök
1 gulrót
1 paprika
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
Núðlur
Orly deig
1 dl hveiti
1 eggjarauða
1 dl vatn
½ tsk lyftiduft (tæplega)
salt (hnífsoddur)
Hveiti, eggjarauða, vatn, lyftiduft og salt hrært saman, olían sett á pönnuna, fiskbitunum dýft í deigið og sett út í heita feitina, þegar fiskurinn er hæfilega steiktur er hann tekinn upp og lagður á eldhúspappír á meðan grænmetið er sett á pönnuna eitt af öðru og steikt létt.
Fiskurinn er lagður ofan á grænmetið, lokið sett á pönnuna og látið sjóða í 4-5 mínútur.
Núðlurnar eru settar í sjóðandi vatn og látið sjóða í 5 mínútur.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.9.2010 | 11:37
Folaldagúllas
Hrossakjöt er í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst fyrir minninguna um niðursoðið hrossabuff þegar ég var smástelpa í foreldrahúsum, en mamma hafði það fyrir sið að sjóða niður kjötið þegar henni áskotnaðist mikið magn af því.
Ef ég fæ hrossakjöt þá kaupi ég það frekar en naut og það gerðist einmitt hér um daginn þegar ég fór að versla í matinn og sá dýrindis folaldagúllas í kjötborðinu, ég stóðst ekki mátið.
hráefni:
500 gr folaldagúllas1 laukar
3 msk olía til steikingar
1 msk paprikuduft
3 gulrætur4 msk. tómatpúrevatnsaltpipar
Saxið laukinn og steikið létt á pönnu eða í potti. Veltið kjötinu upp úr hveiti og bætið því á pönnuna/pottinn ásamt, paprikudufti, salti og pipar. Þegar kjötið er brúnað hellið þá vatni á pönnuna/pottinn svo fljóti yfir, bætið tómatmaukinu út í ásamt gulrótunum og látið sjóða við vægan hita í tæpa klukkustund. Jafnið soðið með Maizena hveitijafnara ef þarf. Borið fram með stöppuðum kartöflum og sultu.
Það er engin rétt leið til að matreiða gúllas, ég á það til að sleppa alfarið tómakraftinum og paprikuduftinu og nota eitthvað annað krydd í staðinn og stundum set ég smá rjóma út í sósuna, það eina sem ég sleppi ekki er að velta kjötinu upp úr hveiti, það gerir sósuna svo góða.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2010 | 14:20
Grunnbrauð
Ég rakst inn á danskan matreiðsluþátt þar sem verið var að kenna ungri konu að baka grunnbrauð. Þetta var merkilegur þáttur og fróðlegur. Ég komst að því að grunnbrauð er í reynd eina brauðið sem við þurfum. Okkur vantar ekki trefjar, vítamín og önnur gæðaefni úr brauði. Það sem við erum fyrst og fremst að leita að í brauði er kolvetni.
Ef maður hugsar málið, þá sér maður að þetta er skynsamlegt, grunnbrauð fyrir kolvetni, álegg og meðlæti fyrir trefjar vítamín og önnur næringarefni.
Brauðið má síðan móta á ýmsa vegu, langt og mjótt, bollur eða hvað annað sem mönnum dettur í hug og svo ef menn vilja má breyta hráefninu að eigin smekk, heilhveiti í stað hveitis, eða blandað til helminga, hver og einn að eigin smekk.
Ég náði ekki uppskriftinni í þættinum þar sem ég var svo upptekin að hlusta á bakarann sem var með kennsluna en ég leitaði eftir uppskrift af grunnbrauði og fann eina sem ég ætla að deila með ykkur hér.
hráefni:
4 dl mjólk
50 gr smjör
25 gr ger
750 gr hveiti
salt
egg, mjólk eða vatn til penslunar
Mjólkin er hituð og smjörið brætt í henni. Kæld hæfilega og gerið síðan leyst upp í henni (ég miða hæflegt við pelahita). Þegar það freyðir er saltinu bætt út í og síðan hveitinu smám saman, þar til deigið er hæfilega þykkt og unnt að hnoða það slétt og sprungulaust (ég nota ekki allt hveitið, læt slétt og sprungulaust ráða magninu). Hnoðað vel í höndunum og síðan látið lyfta sér í um 45 mín. Þá er það hnoðað aftur og mótað í aflangt brauð og sett á plötu. Látið lyfta sér í um 30 mínútur. Ofninn hitaður í 220°C. Brauðið penslað og nokkrir skurðir skornir í það með beittum hníf. Bakað neðst í ofni í 20 til 30 mínútur; eftir 5 mínútur er hitinn lækkaður í 200°C.
Matur og drykkur | Breytt 24.9.2010 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2010 | 08:42
Hratið í marmelaði
Ég vil minna ykkur á efnisyfirlitið hér vinstra megin á síðunni.
Ég er búin að vera að lagfæra eldhúsið mitt, pússa og lakka gólf, lagfæra innréttingu og þess háttar, svo það hefur verið lítið um eldamennsku hjá mér undanfarnar tvær vikur, en nú fer þetta að komast í gang aftur.
Á meðan ég var eldhúslaus var ég að velta fyrir mér hvernig nýta mætti hratið af berjum og ávöxtum sem fara í gegnum safapressu, finnst alltaf hálf sárt að sjá þetta fara í ruslið.
Tengdasonur minn, elskulegur, gerði tilraun með hratið, hann tók það og setti í pott ásamt sykri og sauð upp á því þar til hann var kominn með þetta líka fína marmelaði
hráefni:
1 dl hrat af appelsínu, krækiberjum, bláberjum og gulrót eða hverju öðru sem mönnum getur í hug komið
½ dl strásykur (eða annað sætuefni)
Allt sett í lítinn pott og soðið þar til hæfilega þykkt.
Þetta afbragðs gott og hollt, auk þess að geta verið síbreytilegt með breytilegu hráefni.
Nú er bara að taka hratið, þegar safinn er kominn í glasið, smella í lítinn pott og sjóða til að nota með ristaða brauðinu.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2010 | 10:31
Svínalund fyllt með gráðosti og döðlum
hráefni:
1 hvítkálshaus
2 matskeið smjör
2-3 dl hvítvínsedik
150 gr sykur (eða eftir smekk)
Gerið gat í lundirnar. Kokkurinn sem ég horfði á notaði langt og mjótt stálbrýni, ég hef séð fólk nota sleifarskaft og einnig fingurna, ég notaði stálið.
Stappið saman gráðaosti, döðlum, smá salti og pipar og troðið inn í lundirnar. Saltið og piprið að utan.
Setjið smjör og olíu á pönnu og brúnið lundirnar lítillega á öllum hliðum. Setjið beikonið á pönnuna og steikið með svínalundinni. Lokið henni og steikið áfram í u.þ.b. 15 mínútur við vægan hita. Hellið rjómanum yfir og sjóðið í 5 mínútur. Takið kjötið upp. Þykkið sósuna ef þarf.
Borið fram með súrsuðu hvítkáli og/eða öðru grænmeti.
súrsað hvítkál:
1 hvítkálshaus
2 matskeið smjör
2-3 dl hvítvínsedik
150 gr sykur (eða eftir smekk)
Hvítkálið skorið í þunnar ræmur. Smjörið brætt, hvítkálið sett saman við og steikt smá stund (hrært í stöðugt á meðan, má ekki brenna), edik sett saman við ásamt sykri og soðið við vægan hita þar til sykurinn er bráðnaður og kálið orðið mjúkt.
Ég minnkaði uppskriftina um helming, setti lítinn sykur saman við til að byrja með og smakkaði mig svo áfram með sykurmangið sem og edikið.
Sett í ílát sem þolir frost og inn í frystiskápinn eða geymt í kæli. Geymsluþol í kæli er um það bil vika til tíu dagar. Hitað upp fyrir neyslu.
Matur og drykkur | Breytt 14.9.2010 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2010 | 13:26
Rabarbara cutney
Þá er það rabarbarauppskeran. Ef ég á að mæla með einu fram yfir annað varðandi geymslu á rabarbara þá myndi ég segja að hann eigi að geyma rétt eins og berin, skera niður í hæfilega bita, pakka í 250 og/eða 500 gr umbúðir og geyma í frysti, til að taka fram og nota, baka, sjóða niður og sulta, eftir þörfum.
hráefni:
250 gr rabarbari
½ laukur meðalstór (má vera rauðlaukur)
3 cm biti af engifer
4 msk vínedik (hvítvíns eða rauðvíns)
75 g púðursykur
1 tsk salt
nýmalaður pipar
vatn eftir þörfum
Rabarbarinn er skorinn í fremur stóra bita, laukurinn saxaður smátt og engiferinn mjög smátt. Allt sett í pott, ásamt vínedikinu og sykrinum, hitað að suðu og látið malla í um 15 mínútur. Gott er að bæta vatni við ef þarf svo maukið brenni ekki. Saltað og piprað eftir smekk hvers og eins.
Ef á að geyma maukið eða gefa er það sett í hreinsaðar krukkur.
Margir setja rúsínur saman við chutneyið, sumir kanilstöng, aðrir epli og döðlur. Ég hef prófað að setja rúsínur saman við og finnst það mjög gott. Á eftir að prófa hitt, held að kanilstöngin gæti verið góð sem og epli. En það er bara um að gera að prófa sig áfram.
Rabarbara chutney er skemmtileg jóla- og tækifærisgjöf til ættingja og vina, það er afbragðs gott með kjöti og góður staðgengill sultunnar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)