Rauðmagi á ýmsa vegu

Tengdasonur nr. 1 hringdi, honum hafði áskotnast nokkrir rauðmagar, glænýir, beint úr hafinu. 
Ég er ekki mikil rauðmagakona, en ég er hefðarkona þegar kemur að mat og þar sem rauðmaginn er fyrsti vorboðinn hér á landi þá höfum við haft þann sið að hafa hann á borðum þegar hann kemur í verslanir fyrst á vorin.

rauðmagi


Við slógum upp rauðmagaveislu.  Ég fór hefðarleiðina, valdi að hafa hrogn og reyktan rauðmaga í forrétt og gamaldags soðinn í aðalrétt.  
Þau eru ung og djörf, miklir matgæðingar og enn að móta sínar eigin hefðir, svo þau gerðu þrjár nýjungar, fyrst settu þau fisk á panini grill, síðan ofnbökuðu þau fisk og loks elduðu þau fisk í sítrónusafa.
Hvernig væri nú að gerast þjóðlegur og prófa þetta annars ágæta hráefni.


 

forréttir


Forréttir:

hrogn:
hrognkelsahrogn
snittubrauð
smjör / olía

Snittubrauðið skorið niður, nuddað með hvítlauk og smjöri og sett á panini grill smá stund.  Hrognin sett í hrúgu á smábrauðin.

reyktur rauðmagi:
reyktur rauðmagi
1 rauðlaukur
1 gulrót
rúgbrauð
smjör

Rauðmaginn skorinn í þunnar sneiðar.  Rauðlaukurinn maukaður í matvinnsluvél ásamt gulrótinni (ég skar lauk og gulrót í smábita og maukaði með töfrasprota).  Brauðið smurt með smjöri, rauðlauksmaukið sett ofan á og síðan reyktu rauðmagi.

rauðmagi með kartöflum


Aðalréttir:

soðinn rauðmagi:
2 rauðmagar
1 lárviðarlauf
8 piparkorn
1 msk borðedik
salt

Sjóðandi vatni helt á rauðmagahveljuna, hún skafin vel, allir gaddarnir skafnir af.  Ef ekki á að borða hveljuna með er hún rifin af (við notuðum ekki hveljuna).  Rauðmaginn skorinn í fremur þunnar sneiðar.  Vatn hitað í stórum potti, lárviðarlauf, piparkorn, edik og salt sett út í og látið sjóða í nokkra mínútur.  Rauðmagasneiðarnar settar út í og látnar sjóða við vægan hita í 6-8 mínútur, eftir þykkt.  Fiskurinn borinn fram með sítrónubátum og/eða ediki og soðnum kartöflum.

Uppskriftir ungu skötuhjúanna koma væntanlega inn á matarblogg Soffíu, ég get sagt ykkur undan of ofan hvernig þær litu út.  Annars ættu myndirnar að tala sínu máli. 
Slóðin á vefinn Soffíu er hér.

grillaður rauðmagi      rauðmagi í tortilla

Tvö fiskstykki voru marineruð og sett á panini grill ásamt niðursneiddri papriku, þau voru síðan skorið í litla bita og sett á tortilla kökur ásamt rauðlauk, olíu og ýmsu kryddi.  Fiski var pakkað inn í álpappír rásamt rauðlauk, olíu og kryddi, bakaður í ofni og borinn fram með sítrónu, papriku og kartöflum.  Og loks var fiskur nuddaður upp úr kryddi, þakin sítrónusafa, settur í kæli þar sem hann var látinn marinerast.

ofnbakaður rauðmagi


Það er ekki hægt að segja að einn réttur hafi verið öðrum betri, þeir voru svo ólíkir og allir góðir.
Sítróna er hins vegar alveg ómissandi með rauðmaga.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Kærar þakkir fyrir uppskriftina að ostaskonsunum. Þær slógu í gegn hjá fjölskyldunni,

Þráinn Jökull Elísson, 20.6.2010 kl. 21:29

2 identicon

Sodinn raudmagi med kartöflum, smjöri, edik og lifur.....ég er nú hraeddur um thad.

Forvitinn (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband