Krækiberjakrap

Þegar ég var lítil stelpa fannst mér afskaplega gaman að horfa á konurnar í lífi mínu búa til saft úr krækiberjunum.  Þær suðu berin í heljarstórum pottum, strekktu dúk yfir annað ílát og létu safann renna þar í gegn til að sigta hratið frá áður en lögurinn var settur á flöskur.  Ilmurinn var dásamlegur sem og saftin sem maður fékk að dreypa á eða borða út á grauta allan veturinn.

Ég get ekki hugsað mér að láta sumarið líða án þess að sanka að mér þessu dásamlega hráefni til að sjóða niður, frysta og geyma til vetrarins, þegar sól er lágt á lofti og kroppurinn í þörf fyrir vítamínin sem náttúran býr til handa honum.

krækiber

Ég þekki einungis fjórar aðferðir til að meðhöndla krækiberjauppskeruna, að stýfa hana úr hnefa, safta berin og sulta og loks búa til krap.  Ég vel krapið, bæði vegna þess að það er svo hentugur geymslumáti og auk þess finnst mér það svo gott.
Það er líka gott að heilfrysta eitthvað af berjunum til að sjóða í sultu eftir þörfum. 


Hráefni:
1 lítri krækiberjasaft
1 sítróna
150-200 gr sykur

Berin eru sett í blandara og maukuð, síðan hellt í gegnum sigti, pressað vel til að ná út þeim öllum safanum, sem er settur í pott.  Kreistið safann úr sítrónunni og setjið saman við löginn ásamt sykrinum. 
Látið sjóða rösklega upp á leginum og malla í 10 mín, hellið honum í mjólkurfernur eða fernur undan ávaxtasafa, sem búið er að þrífa vel.  Látið safann kólna lítillega áður en þið setjið hann inn í frysti.  Hrærið af og til í leginum á meðan hann er að frjósa.

Við hrærum í saftinni á meðan hún er að frjósa til að brjóta ískristalana, þeir verða að vera smáir til að mynda krap, annars verður saftin bara einn stór ísklumpur.  Ef þið setjið saftina inn áður en þið farið að sofa þá er hún byrjuð að frosna morguninn eftir og þá þarf að hræra í og svo af og til þar til krapið er tilbúið.  Þið sjáið hvenær ykkur finnst það hæfilegt og þá helst það þannig.


Uppskriftin gerir ráð fyrir einum lítra af safa svo menn verða bara að umreikna miðað við það magn sem þeir hafa 

Ég hef bæði notað berjapressu og blandara til að ná safanum úr berjunum og finnst blandarinn þrifalegri. 

Það er afar misjafnt hversu mikið sykurmagn menn nota, hef séð tölur allt frá 150 gr upp í 400 gr.  Það er vel hægt að nota önnur sætuefni, eins og t.d. döðlur, sem gefa afbragðs gott bragð.  Sjálf fer ég gömlu leiðina og nota strásykurinn. 
Um að gera að smakka og finna út hvað hverjum og einum hugnast best.

Krækiberjakrap


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband