12.10.2010 | 10:07
Steinselja
Þá er steinseljan komin í hús tilbúin til geymslu. Uppskera varð dágóð, hef sjaldan eða aldrei sé jurtina svona stóra og fallega og ilmurinn eftir því góður.
Ég hef bæði heyrt mælt með og á móti þurrkun, margir telja það henta prýðilega aðrir segja jurtina missi lit og bragð við þessa aðferð.
Sjálf frysti ég steinseljuna og veit að hún heldur bæði lit og bragði við það.
Það má saxa hana niður í smápoka til að taka fram eftir þörfum. Ég tek hins vegar hríslurnar í búnt, þvæ og læt þorna smá áður en ég set þær í heilu lagi í plastpoka og inn í fyrsti. Þegar hríslurnar eru frosnar tek ég pokann og rúlla honum upp og myl steinseljuna í hæfilega grófa mylsnu. Ég tek steinseljuna síðan úr pokanum og set í ísbox, finnst þægilegra að geta stungið hendinni ofan í box og sótt mér handfylli í súpur, pottrétti og sallöt.
Það má að sjálfsögðu nota þessa geymsluaðferð á steinseljuna sem menn kaupa úti í búð. Margir sleppa að nota hana þar sem afgangurinn er of mikill og vill skemmast, þá er bara að skola, frysta og mylja það sem afgans er og eiga til síðari tíma.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:24 | Facebook
Athugasemdir
Var einmitt að kaupa stórt búnt af steinselju hjá Laugu - gott að fá ráðleggingarnar.
Sigrún Óskars, 14.10.2010 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.