Lambahryggur allra tíma

Það er kúnst að læra að elda fyrir tvo eftir að hafa haft sex munna og maga til að elda ofan í.  En það lærist smá saman, með smá mistökum hér og þar, of lítið og of mikið á stundum.
Manni hættir til að elda léttara fyrir tvo og þá sleppa stórsteikunum.  Stundum fær maður þó löngun í eitthvað kraftmikið og safaríkt, eitthvað mjög gott, eitthvað í ætt við gamaldags hrygg.  Þá lætur maður það bara eftir sér.

Lambahryggur


Hráefni (fyrir 2+)

Hálfur hryggur (rúmt kíló)
rósmarin (ferskt)
basilíka (fersk)
graslaukur
lambakrydd
salt
pipar
olía


Ég keypti hálfan hrygg, betri hlutann, byrjaði á að rista rákir í fituna svo kryddið ætti greiðari leið að kjötinu, lagði ferskar kryddjurtir, rósmarin, basilíku og graslauk í botninn á steikarpottinum, bara svona nokkrar hríslur af hverju, stráði yfir það lambakryddi og olíu, lagði hrygginn þar ofan á, saltaði og pipraði að mínum smekk, lagði annað lag af ferskum kryddjurtum yfir hrygginn, lokaði pottinum og stakk inn í ofninn við 180 gráðu hita, í tvær klukkustundir.

Þegar hryggurinn var steiktur, setti ég hann á fat og lét standa á meðan ég útbjó sósu úr soðinu.  Ég síaði soðið, setti í pott, bætti við það köldu vatni, jafnaði með Maizena mjöli og bragðbætti með smá sultu og rjóma.

Herlegheitin bar ég svo fram með soðnum kartöflum og gulrótum.  Sykurbrúnaðar kartöflur hefðu komið til greina, en stundum langar mig mest í soðnar, sem ég svo stappa saman með sultu og sósu.  Þá sýð ég meira en nóg svo ég geti fengið smá viðbót af kartöflunum.

Hryggur

Þegar á reyndi urðum við þrjú við matborðið og reyndist hálfur hryggur fyllilega nóg fyrir okkur öll, áttum meira að segja afgang til að narta í fram eftir kvöldi og í hádeginu daginn eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daði Hrafnkelsson

namm,, þetta er frábærlega girnilegt, ég rek stórt heimili eins og er, við erum 5 og vonandi fjölgar eitthvað, þannig að það hlýtur að vera mikil breyting að fara niður í tvo.

Daði Hrafnkelsson, 30.7.2011 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband