Færsluflokkur: Bloggar

Uxahalasúpa

Uxahalasúpa



Bóndinn fékk uxahala í afmælisgjöf, svo við fengum að elda uxahalasúpu í fyrsta sinn á ævinni.  Ekki seinna að vænna. 

Við vorum með einn hala og reyndist það alveg nóg í matinn, fyrir 4, enda vorum við með nóg af heimabökuðu brauði.  Súpan var algjört sælgæti.

Uxahalinn var keyptur beint frá býli, í Matarbúrinu, hjá bóndanum á Hálsi í Kjós, auðratað, keyrt inn Hvalfjörðinn að Laxá í Kjós, þegar komið er yfir brúna er beygt til vinstri, þá er býlið og verslunin á hægri hönd þegar ekið er upp hálsinn.


 

Uxahali



Uxahalasúpa
1 ½ - 2 kíló uxahalar (svona um það bil)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
½ sellerístöngull
50 g smjör eða olía
2 lítrar vatn eða þar um bil
1 msk tómatkraftur (purée)
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:
steinselja
timjan
lárviðarlauf
bundið saman með sláturgarni

1/2 dl. sérrí eða þurrt madeira (ég sleppi þessu alltaf)


Það þarf að gróf hreinsa halabitana ef þeir eru mjög feitir.  Halinn frá Hálsi var hinsvegar vel hreinsaður og búið að höggva hann í hæfilega stóra bita.

Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund til viðbótar.
Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn, svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við.. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.
Bætið við salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín).

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Ég bind kryddjurtavöndinn við handfangið á pottinum svo auðveldara sé að ná honum upp í heilu lagi eftir suðu.


uxahalasúpa og brauð


Ciabatta samloka

Stundum langar manni að breyta til og nota eitthvað annað í stað kartaflna eða pasta þá er tilvalið að skella í eina Ciabatta samloku.  Það eru til margar ágæta uppskriftir af Ciabatta brauði en ég kaupi það bara tilbúið úti hjá mínum kaupmanni eða í bakaríinu.

Ciabatta


Hráefni:

2 stk Ciabatta brauð
1 svínalund
beikon
sinnepssósa
rifinn ostur
smjör
olía
salt
pipar
timian
rósmarin


Ég sker lundina niður í lítil stykki sem ég flet út með kjöthamri, krydda með salti, pipar, timían og rósmarin og brúna síðan á pönnu í smjöri og olíu.
Kryddið má alveg vera hvað sem er, eftir smekk hvers og eins.

Á meðan svínalundin er að brúnast, steiki ég beikonið á annarri pönnu.

Þegar hráefnið er tilbúið sker ég brauðið í tvo helminga, smyr helmingana með sinnepssósu, raða svínalundinni ofan á neðri helminginn og svo beikoninu ofan lundina, strái osti yfir og set í 180°C heitan ofninn 5 mínútur eða þangað til osturinn er orðinn gullinn.

Borið fram með sinnepssósu eða þeirri sósu sem ykkur hugnast best.

Ciabatta samloka


Svona til fróðleiks, ég hef prófað önnur hráefni í Ciabatta brauðið og það virðist vera alveg sama hvað mér dettur í hug, það er alltaf jafn gott.

Besta útfærslan sem ég hef fengið af þessu brauði er samt svona;
Ciabatta brauð smurt með sinnepssósu, nauthakk brúnað á pönnu og kryddað að smekk hvers og eins, hakkið sett ofan á brauðið, vel úti látið, laukur saxaður og settur ofan á hakkið og sveppir brúnaðir í smjöri settir ofan á laukinn, osti stráð yfir allt, brauðinu lokað og smá osti stráð ofan á brauðið og bakað eins og fyrr segir.



Lambahryggur allra tíma

Það er kúnst að læra að elda fyrir tvo eftir að hafa haft sex munna og maga til að elda ofan í.  En það lærist smá saman, með smá mistökum hér og þar, of lítið og of mikið á stundum.
Manni hættir til að elda léttara fyrir tvo og þá sleppa stórsteikunum.  Stundum fær maður þó löngun í eitthvað kraftmikið og safaríkt, eitthvað mjög gott, eitthvað í ætt við gamaldags hrygg.  Þá lætur maður það bara eftir sér.

Lambahryggur


Hráefni (fyrir 2+)

Hálfur hryggur (rúmt kíló)
rósmarin (ferskt)
basilíka (fersk)
graslaukur
lambakrydd
salt
pipar
olía


Ég keypti hálfan hrygg, betri hlutann, byrjaði á að rista rákir í fituna svo kryddið ætti greiðari leið að kjötinu, lagði ferskar kryddjurtir, rósmarin, basilíku og graslauk í botninn á steikarpottinum, bara svona nokkrar hríslur af hverju, stráði yfir það lambakryddi og olíu, lagði hrygginn þar ofan á, saltaði og pipraði að mínum smekk, lagði annað lag af ferskum kryddjurtum yfir hrygginn, lokaði pottinum og stakk inn í ofninn við 180 gráðu hita, í tvær klukkustundir.

Þegar hryggurinn var steiktur, setti ég hann á fat og lét standa á meðan ég útbjó sósu úr soðinu.  Ég síaði soðið, setti í pott, bætti við það köldu vatni, jafnaði með Maizena mjöli og bragðbætti með smá sultu og rjóma.

Herlegheitin bar ég svo fram með soðnum kartöflum og gulrótum.  Sykurbrúnaðar kartöflur hefðu komið til greina, en stundum langar mig mest í soðnar, sem ég svo stappa saman með sultu og sósu.  Þá sýð ég meira en nóg svo ég geti fengið smá viðbót af kartöflunum.

Hryggur

Þegar á reyndi urðum við þrjú við matborðið og reyndist hálfur hryggur fyllilega nóg fyrir okkur öll, áttum meira að segja afgang til að narta í fram eftir kvöldi og í hádeginu daginn eftir.


Rabarbarakaka Grétu

Þetta er ein sú allra besta rabarbarakaka sem ég hef smakkað svo ég verð hreinlega að deila henni með ykkur.


IMG_1214

 

Rabarbarakaka á hvolfi  
80-100 gr smjör
150-200 gr sykur
1 egg
½ tsk vanilludropar
150 gr . hveiti
2. tsk. lyftiduft
1/8 tsk salt
1 ¼ dl mjólk
3 msk smjör
2 dl púðursykur
2 bollar smátt skorinn rabarbari 

Bræðið 3 msk af smjöri í kökumótinu, jafnið 2 dl af púðursykur í mótið og þar yfir 2 bollum af smátt skornum rabarbara.
Hrærið smjör og sykur þangað til það er létt og ljóst.  Setjið eggið saman við, ½ í einu, og hrærið vel. 
Hveiti og lyftiduft sett út í eggjahræruna ásamt mjólkinni og vanilludropunum. 

Deiginu helt yfir rabarbarann í mótinu.  Bakað við meðalhita (180°C) í 40-50 mín.  
Hvolft á grind og látið bíða í 2-3 mín.  Borið fram með þeyttum rjóma.


IMG_1220

Það má auðveldlega skipta rabarbaranum út fyrir aðra ávexti, nýja, niðursoðna eða þurrkaða.  Þurrkaða ávexti þarf að bleyta upp í fyrst og sykurmagninu þarf að breyta eftir tegund ávaxta. 


Kjöthleifur

Nei, ég er ekki hætt að elda og gera tilraunir í matargerðinni og ekki hætt að taka myndir af árangrinum.  En ég hef verið ansi löt að setja uppskriftirnar inn á vefinn, hef verið með hugann við daglega bloggið, ljósmyndirnar og myndböndin. 

Ég er samt ekki hætt og ætla að halda þessu áfram, er farin að finna fyrir svolítilli fortíðarþrá, það gerir aldurinn, langar orðið að fara aftur í tímann og taka fyrir gömlu góðu réttina sem voru við lýði þegar ég var að alast upp.  Þá fékk maður alltaf aðal- og eftirrétt, held það væri ekki vitlaust að taka það upp aftur, gæti jafnvel verið hollari matur, svo ekki sé talað um ódýrara.  En það er síðari tíma verkefni.

Í dag er kjöthleifur í matinn, gamaldags, einfaldur matur, með nútímaívafi, sem má auðveldlega breyta í dýrindis sunnudagsmat.

kjöthleifur

Kjöthleifur

500 gr nautahakk
½ pk púrrulaukssúpa
½ laukur (saxaður)
1 egg
1. dl mjólk
3 msk tómatsósa
2 msk púðursykur
1 msk gult sinnep
5 beikonsneiðar
salt
pipar

Hitið ofninn í 200 °C.  Takið 2 beikonsneiðar og saxið eða klippið smátt geymið hinar 3 til að leggja ofan á kjöthleifinn.  Blandið saman hakkinu, lauksúpunni, lauknum, beikoninu, egginu og mjólkinni, ásamt salti og pipar, hnoðið þetta létt saman með höndunum, kjötdeigið verður seigara ef það er hrært saman með þeytara eða í hrærivél.  Mótið í aflangt brauð, setjið beikonsneiðarnar ofan á hleifinn og setjið í smurt eldfast mót. 
Hrærið saman púðursykrinum, tómatsósunni og sinnepinu og setjið ofan á hleifinn.  Bakið í ofni í um það bil klukkustund.  Látið standa í 10 mín áður en hleifurinn er sneiddur niður.
Borið fram með kartöflustöppu og rótargrænmeti.

Það má hliðra þessari uppskrift til á ýmsan máta, það er ekkert mál að sleppa lauknum eða bæta við grænmeti, eins og t.d. papriku og sveppum eða ýmsum kryddjurtum. 
Það er ekki nauðsynlegt að setja beikonsneiðar ofan á kjötið, ég ímynda mér bara að það geri kjötið safameira. 

Sósa er ekki nauðsynleg en þeir sem vilja hafa sósu með þessum rétti geta látið vatn í eldfasta mótið unir lok steikingarinnar og notað kjötsafann sem sósugrunn, gott er að bragðbæta sósuna með súputening og setja smá rjóma saman við í lokin.

Þetta er alveg óheyrilega góður matur og um að gera að prófa sig áfram, gera þetta að hvunndagsmat til skiptis við sunnudagsmat með mismunandi hætti.


Hvítlauksgras

Hvítlauksgras
 

Þegar græn grös eru farin að vaxa upp af hvítlauksgeirunum í ísskápnum er um að gera að stinga þeim annað hvort í vatn eða beint í mold og leyfa þeim vaxa.  Grösin eru fyrirtaks krydd, klippið grösin eftir þörfum, saxið smátt og setjið út í ýmsa rétti.  Grasið er bragðmikið, sambland af hvítlauk og venjulegum gulum lauk.

Svona til frekari fróðleiks: 

Ef ég set hvítlauksrifið í vatn þá er nóg að setja rótarkerfi ofan í vatnið.  Ég nota gjarnan lítið glas til þessa og gæti þess að vatnið þorni ekki upp.  Þegar ég sting því í mold þá læt ég það alveg ofan í moldina, þannig að einungis grasið stendur upp úr og vökva reglulega.

það er einnig hægt að rækta nýjan hvítlauk með því að setja rif í mold, það tekur að vísu drjúgan tíma fyrir nýjan lauk að myndast og þar sem ég er frekar óþolinmóð þá hef ég hingað til látið grösin nægja.

 


Grunnbrauð

Ég rakst inn á danskan matreiðsluþátt þar sem verið var að kenna ungri konu að baka grunnbrauð.  Þetta var merkilegur þáttur og fróðlegur.  Ég komst að því að grunnbrauð er í reynd eina brauðið sem við þurfum.  Okkur vantar ekki trefjar, vítamín og önnur gæðaefni úr brauði.  Það sem við erum fyrst og fremst að leita að í brauði er kolvetni.

grunnbrauð


Ef maður hugsar málið, þá sér maður að þetta er skynsamlegt, grunnbrauð fyrir kolvetni, álegg og meðlæti fyrir trefjar vítamín og önnur næringarefni.
Brauðið má síðan móta á ýmsa vegu, langt og mjótt, bollur eða hvað annað sem mönnum dettur í hug og svo ef menn vilja má breyta hráefninu að eigin smekk, heilhveiti í stað hveitis, eða blandað til helminga, hver og einn að eigin smekk.

Ég náði ekki uppskriftinni í þættinum þar sem ég var svo upptekin að hlusta á bakarann sem var með kennsluna en ég leitaði eftir uppskrift af grunnbrauði og fann eina sem ég ætla að deila með ykkur hér.

hráefni:
4 dl mjólk
50 gr smjör
25 gr ger
750 gr hveiti
salt
egg, mjólk eða vatn til penslunar

Mjólkin er hituð og smjörið brætt í henni.  Kæld hæfilega og gerið síðan leyst upp í henni (ég miða hæflegt við pelahita).  Þegar það freyðir er saltinu bætt út í og síðan hveitinu smám saman, þar til deigið er hæfilega þykkt og unnt að hnoða það slétt og sprungulaust (ég nota ekki allt hveitið, læt slétt og sprungulaust ráða magninu).  Hnoðað vel í höndunum og síðan látið lyfta sér í um 45 mín.  Þá er það hnoðað aftur og mótað í aflangt brauð og sett á plötu.  Látið lyfta sér í um 30 mínútur.  Ofninn hitaður í 220°C.  Brauðið penslað og nokkrir skurðir skornir í það með beittum hníf.  Bakað neðst í ofni í 20 til 30 mínútur; eftir 5 mínútur er hitinn lækkaður í 200°C.

grunnbrauð2



Rabarbara cutney

Þá er það rabarbarauppskeran.  Ef ég á að mæla með einu fram yfir annað varðandi geymslu á rabarbara þá myndi ég segja að hann eigi að geyma rétt eins og berin, skera niður í hæfilega bita, pakka í 250 og/eða 500 gr umbúðir og geyma í frysti, til að taka fram og nota, baka, sjóða niður og sulta, eftir þörfum.

rabarbara cutney

hráefni:
250 gr rabarbari
½ laukur meðalstór (má vera rauðlaukur)
3 cm biti af engifer
4 msk vínedik (hvítvíns eða rauðvíns)
75 g púðursykur
1 tsk salt

nýmalaður pipar
vatn eftir þörfum

Rabarbarinn er skorinn í fremur stóra bita, laukurinn saxaður smátt og engiferinn mjög smátt. Allt sett í pott, ásamt vínedikinu og sykrinum, hitað að suðu og látið malla í um 15 mínútur.  Gott er að bæta vatni við ef þarf svo maukið brenni ekki.  Saltað og piprað eftir smekk hvers og eins. 
Ef á að geyma maukið eða gefa er það sett í hreinsaðar krukkur.

 

Margir setja rúsínur saman við chutneyið, sumir kanilstöng, aðrir epli og döðlur.  Ég hef prófað að setja rúsínur saman við og finnst það mjög gott.  Á eftir að prófa hitt, held að kanilstöngin gæti verið góð sem og epli.  En það er bara um að gera að prófa sig áfram.

Rabarbara chutney er skemmtileg jóla- og tækifærisgjöf til ættingja og vina, það er afbragðs gott með kjöti og góður staðgengill sultunnar.


Krækiberjakrap

Þegar ég var lítil stelpa fannst mér afskaplega gaman að horfa á konurnar í lífi mínu búa til saft úr krækiberjunum.  Þær suðu berin í heljarstórum pottum, strekktu dúk yfir annað ílát og létu safann renna þar í gegn til að sigta hratið frá áður en lögurinn var settur á flöskur.  Ilmurinn var dásamlegur sem og saftin sem maður fékk að dreypa á eða borða út á grauta allan veturinn.

Ég get ekki hugsað mér að láta sumarið líða án þess að sanka að mér þessu dásamlega hráefni til að sjóða niður, frysta og geyma til vetrarins, þegar sól er lágt á lofti og kroppurinn í þörf fyrir vítamínin sem náttúran býr til handa honum.

krækiber

Ég þekki einungis fjórar aðferðir til að meðhöndla krækiberjauppskeruna, að stýfa hana úr hnefa, safta berin og sulta og loks búa til krap.  Ég vel krapið, bæði vegna þess að það er svo hentugur geymslumáti og auk þess finnst mér það svo gott.
Það er líka gott að heilfrysta eitthvað af berjunum til að sjóða í sultu eftir þörfum. 


Hráefni:
1 lítri krækiberjasaft
1 sítróna
150-200 gr sykur

Berin eru sett í blandara og maukuð, síðan hellt í gegnum sigti, pressað vel til að ná út þeim öllum safanum, sem er settur í pott.  Kreistið safann úr sítrónunni og setjið saman við löginn ásamt sykrinum. 
Látið sjóða rösklega upp á leginum og malla í 10 mín, hellið honum í mjólkurfernur eða fernur undan ávaxtasafa, sem búið er að þrífa vel.  Látið safann kólna lítillega áður en þið setjið hann inn í frysti.  Hrærið af og til í leginum á meðan hann er að frjósa.

Við hrærum í saftinni á meðan hún er að frjósa til að brjóta ískristalana, þeir verða að vera smáir til að mynda krap, annars verður saftin bara einn stór ísklumpur.  Ef þið setjið saftina inn áður en þið farið að sofa þá er hún byrjuð að frosna morguninn eftir og þá þarf að hræra í og svo af og til þar til krapið er tilbúið.  Þið sjáið hvenær ykkur finnst það hæfilegt og þá helst það þannig.


Uppskriftin gerir ráð fyrir einum lítra af safa svo menn verða bara að umreikna miðað við það magn sem þeir hafa 

Ég hef bæði notað berjapressu og blandara til að ná safanum úr berjunum og finnst blandarinn þrifalegri. 

Það er afar misjafnt hversu mikið sykurmagn menn nota, hef séð tölur allt frá 150 gr upp í 400 gr.  Það er vel hægt að nota önnur sætuefni, eins og t.d. döðlur, sem gefa afbragðs gott bragð.  Sjálf fer ég gömlu leiðina og nota strásykurinn. 
Um að gera að smakka og finna út hvað hverjum og einum hugnast best.

Krækiberjakrap


Graslaukur

Það má sjá graslauk víða í görðum fólks.  Margir láta sér nægja að hafa hann til skrauts eða nota hann sem myndefni.  En graslaukur er ekki bara fallegur og myndvænn heldur og vel ætur og þá blómin með talin.

graslaukur


Ég hef tekið efti því í sumar að margir sem nýta laukinn, nýta ekki blómin, henda þeim jafnvel.  Blómin eru afar bragðgóð, svolítið sætari en laukurinn sjálfur en samt gott laukbragð af þeim og því engin ástæða að henda þeim. 

Graslauksblóm


Prófið að taka eitt lítið blóm og smakka.  Það kemur á óvart.

Blómin má nota hrá í salatið eða þurrka sem krydd. 
Ég þurrka blómin í venjulegum grisjupoka sem fæst í öllum matvöruverslunum, til notkunar undir smástykki, sem ekki eiga að týnast í þvottavélinni. 

þurrkun


Ég hengi pokan út á svalir eða á grein á einhverjum runnanum í garðinum og læt vindinn um að þurrka þau. Síðan set ég þau í krukku til síðari notkunar.  Það má líka þurrka blómin við vægan hita í ofni. 

krydd


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband