Kjöthleifur

Nei, ég er ekki hætt að elda og gera tilraunir í matargerðinni og ekki hætt að taka myndir af árangrinum.  En ég hef verið ansi löt að setja uppskriftirnar inn á vefinn, hef verið með hugann við daglega bloggið, ljósmyndirnar og myndböndin. 

Ég er samt ekki hætt og ætla að halda þessu áfram, er farin að finna fyrir svolítilli fortíðarþrá, það gerir aldurinn, langar orðið að fara aftur í tímann og taka fyrir gömlu góðu réttina sem voru við lýði þegar ég var að alast upp.  Þá fékk maður alltaf aðal- og eftirrétt, held það væri ekki vitlaust að taka það upp aftur, gæti jafnvel verið hollari matur, svo ekki sé talað um ódýrara.  En það er síðari tíma verkefni.

Í dag er kjöthleifur í matinn, gamaldags, einfaldur matur, með nútímaívafi, sem má auðveldlega breyta í dýrindis sunnudagsmat.

kjöthleifur

Kjöthleifur

500 gr nautahakk
½ pk púrrulaukssúpa
½ laukur (saxaður)
1 egg
1. dl mjólk
3 msk tómatsósa
2 msk púðursykur
1 msk gult sinnep
5 beikonsneiðar
salt
pipar

Hitið ofninn í 200 °C.  Takið 2 beikonsneiðar og saxið eða klippið smátt geymið hinar 3 til að leggja ofan á kjöthleifinn.  Blandið saman hakkinu, lauksúpunni, lauknum, beikoninu, egginu og mjólkinni, ásamt salti og pipar, hnoðið þetta létt saman með höndunum, kjötdeigið verður seigara ef það er hrært saman með þeytara eða í hrærivél.  Mótið í aflangt brauð, setjið beikonsneiðarnar ofan á hleifinn og setjið í smurt eldfast mót. 
Hrærið saman púðursykrinum, tómatsósunni og sinnepinu og setjið ofan á hleifinn.  Bakið í ofni í um það bil klukkustund.  Látið standa í 10 mín áður en hleifurinn er sneiddur niður.
Borið fram með kartöflustöppu og rótargrænmeti.

Það má hliðra þessari uppskrift til á ýmsan máta, það er ekkert mál að sleppa lauknum eða bæta við grænmeti, eins og t.d. papriku og sveppum eða ýmsum kryddjurtum. 
Það er ekki nauðsynlegt að setja beikonsneiðar ofan á kjötið, ég ímynda mér bara að það geri kjötið safameira. 

Sósa er ekki nauðsynleg en þeir sem vilja hafa sósu með þessum rétti geta látið vatn í eldfasta mótið unir lok steikingarinnar og notað kjötsafann sem sósugrunn, gott er að bragðbæta sósuna með súputening og setja smá rjóma saman við í lokin.

Þetta er alveg óheyrilega góður matur og um að gera að prófa sig áfram, gera þetta að hvunndagsmat til skiptis við sunnudagsmat með mismunandi hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband