Pizza - Flatbaka

Pizza er afar vinsæll matur á mínu heimili og ég hef þær alltaf frekar matarmiklar.  Við skiptum deiginu alltaf í tvennt og gerum tvær pizzur aðra með hakki og hina pepperoni ásamt öðru góðgæti.


pizzadeig


pizzadeig:
2 ½ dl vatn (volgt)
1 bréf þurrger = 2½ tsk = um 15 gr
2 msk olía
7-8 dl hveiti (byrja á 7 dl og bæta við ef þarf)

Gerið leyst upp í vatninu.
Matarolíu og hveiti blandað saman við og hnoðað vel.
Látið lyta sér eða hefast í 20-30 mín, á hlýjum stað.  Gott er að breiða viskastykki eða annan klút yfir skálina á meðan deigið er að lyfta sér.
Þegar deigið er fullhefað er það hnoðað aftur og flatt út á bökunarpappír.
Kantar smurðir með olíu.


pizza

pizzasósa:
¼ dós tómarpúrre
2 msk tómatsósa
1 msk soyasósa
hvítlaukur eftir smekk (ég nota 2-3 rif)
pizzakrydd eftir smekk

pizza-ofanálegg:
250 gr nautahakk

1 bréf peppeproni

1 laukur

1 paprika

½ box (250 gr) sveppir

3-4 tómatar
1 pk rifinn ostur

Bakist við 200°C í u.þ.b. 20 mín.

Ég hef aðra pizzuna með hakki og hina með pepperoni.  Laukurinn er saxaður, paprikan skorin smátt, sveppirnir skornir í sneiðar og tómatarnir í litla bita, þessu dreifi ég svo á báða pizzubotnana. 
Ef ég á afganga af osti þá ríf ég þá niður, annars kaupi ég rifinn ost.  Báðar pizzurnar eru kryddaðar með einhverju kryddi, gjarnan frá pottagöldrum, ef ég á pizzakrydd þá nota ég það, annars finn ég eitthvað sem ég held að henti.


pizza


Rabarbarasúpa

Fyrst ég var að klára rabarbarann frá síðasta hausti ákvað ég að nota hluta af honum í rabarbarasúpu.


rabarbarasúpa

hráefni:
300 g rabarbari
1 líter vatn
125 g strásykur, eða eftir smekk
1 msk kartöflumjöl
(má sleppa)
matarlitur
, rauður, (má sleppa)

Rabarbarinn er hreinsaður, skorinn í bita og settur í pott ásamt vatni og sykri.  Hitað að suðu og látið sjóða þar til rabarbarinn er orðinn meyr og allur kominn í sundur. Hrært oft á meðan.
Kartöflumjölið hrært saman við lögg af köldu vatni.  Potturinn tekinn af hitanum og kartöflumjölinu hrært út í súpuna.
Borin fram með muldum tvíbökum.

Ég sleppi alveg kartöflumjölinu þar sem mér finnst það gera súpuna þykkari og slepjulegri.  Auk þess þykknar súpan smám saman við suðu og ef hún er látin sjóða í svolítinn tíma, kannski hálfa klukkusutnd eða svo, verður hún alveg mátulega þykk.
Matarlitur er alveg óþarfur.
Margir vilja minnka sykurmagnið, en súpan yrði sennilega allt of súr við það.  Það væri frekar spurning um að nota hrásykur, nú eða púðursykur í stað þess hvíta.
Sumir sía súpuna en ég vil hafa kjöttæurnar með.  Ég mauka hinsvegar rabarbarann með gamla kartöflustöppujárninu hennar mömmu eða smelli töfrasprota í súpuna ef mér finnst rabarbarabitarnir of grófir, sem gerist nánast aldrei.



Rabarbarabaka

Í fyrrahaust, áður en frost eyðilegði rabarbarann í garðinum, sótti ég hann í hús, skar í bita og frysti.  Nú sé ég að rabarbarinn er farinn að kíkja upp úr moldinni svo nú er komið að því að klára rabarbarann úr frystinum og baka síðasta pæið frá þeirri uppskeru. 


rabarbari


hráefni:
Fylling:
400 gr Rabbarbari, smátt brytjaður
2 Egg
2 dl.Strásykur
1/2 dl Hveiti
Egg, strásykur og hveiti sett í skál og hrært vel saman.  Rabbarbaranum blandað saman við, sett í ofnfast fat eða bökuform.


rabarbarapæ


Kökublanda:
1 3/4 dl Hveiti
1 dl Púðursykir
50 gr Smjör
Allt hnoðað saman og dreift yfir rabbarbarann.
Bakað við 200°C í 45 mín

Borið fram með ís eða þeytum rjóma


Silungaklattar

Einhvers staðar heyrði ég að þessi uppskrift væri fyrir forrétt og ég get vel trúað því, get hæglega séð einn lítinn siluga-, laxa- eða humarklatta fyrir mér, á litlum diski með smá sósu yfir, sem bragðbætir fyrir aðalrétt.
Ég hef hinsvegar valið að hafa þetta sem aðalrétt, og þá eru margir, ekki of litlir klattar á diski með hrásalati og léttri sósu.  Afar bragðgott og vinsælt.


silungaklattar


hráefni (fyrir 4):
250 – 300 gr silungur
1 msk sítrónubörkur rifinn
3 egg slegin saman
¾ bolli (1½ dl) hveiti
1 tsk lyftiduft
3-4 msk hrein jógúrt
1 bolli (1-2 dl) vorlaukur
sýrður rjómi

Silungurinn skorinn í teninga og geymdur í ískáp. 
Sítrónubörkur, egg, hveiti, lyftiduft og jógúrt blandað vel saman.
Silungurinn og vorlaukurinn settur saman við rétt fyrir steikingu. 
Steikt í smjöri eða olíu á pönnu. 
Borið fram hrísgrjónum, hrásalati og sýrðum rjóma.
Hægt að nota hvaða fisktegund sem er, lax, humar eða annað, sem og grænmeti.


Svínakótelettur með tómötum, lauk og eplum

Þessa uppskrift eignaðist ég fyrir meira en 40 árum, þá aðeins tuttugu ára, nýgift, búsett í Danmörku, og kunni ekkert að elda.  
Ég var svo lánsöm að hafa slátrara í hverfinu, sem sagði mér til um hvað ég ætti að hafa í matinn, hvaða hráefni ég þyrfti og hvernig ég ætti að matreiða það.  Þessi uppskrift er frá honum og er hún afar vinsæl á mínu heimili.


Svínakótelettur

hráefni (fyrir 4):
4 svínakótelettur
4 laukar (litlir)
1 dós Tómatar heilir
4 epli gul eða græn
sojasósa
smjör
salt
pipar

Kóteletturnar kryddaðar með salti og pipar og brúnaðar í smjöri á pönnu.  Settar í eldfast fat. 
Eplin þvegin og kjarnahreinsuð og sett í fatið. 
Suðan látin koma upp á lauknum og hann settur í fatið með kjötinu. 
Tómatarnir teknir úr dósinni og settir ofan á kóteletturnar.  Safanum af tómötunum helt út á pönnuna ásamt sojasósu, látið sjóða smá stund á pönnunni, örlitlu vatni bætt við ef þarf, og síðan helt yfir matinn í fatinu. 
Fatið sett í ofninn og bakað við 200°C í 35 mín.  Borið fram með hrísgrjónum.



Kartöflugúllas

Þegar ég fór að rækta kartöflur aftur eftir marga ára hlé, fór ég að leita eftir kartöfluuppskriftum til að geta nýtt þetta merkilega hráefni sem best.  
Þar eru til ótrúlega margar, skemmtilegar uppskrifti þar sem kartöflur eru í öndvegi, kökur og klattar, súpur, meðlæti og aðalréttir, endalausar hugmyndur og tilraunir. 
Þessa uppskrif fann ég í bókinni Matarást, hún er afbragðsgóð, auðvelt að breyta henni og má nota hvort heldur er sem meðlæti eða aðalrétt.

kartöflugúllas


hráefni (fyrir 4):
800 gr kartöflur (soðnar og afhýddar)
1 msk olía
2 laukar (saxaðir)
1 msk paprikuduft
1 paprika græn (fræhreinsuð og skorin í bita)
4 tómatar (afhýddir og saxaðir)
2 dl soð eða vatn
1 msk rauðvínsedik
salt
pipar (nýmalaður)

Kartöflur skornar í bita.  Olían hituð, i potti og laukurinn svitaður í henni þar til hann er glær.
Paprikuduftinu hrært saman við og síðan er paprika, tómatar, soð, edik og krydd sett út í ásamt kartöflunum.  Hrært og látið malla við vægan hita, í 10 mínútur.
Borið fram sem meðlæti með ýmsu kjötmeti, t.d. pylsum, bollum eða steiktu kjöti.
Einnig má brytja pylsur og setja út í og kartöflurnar og bera gúllasið fram sem aðalrétt.


Roti flatbrauð

Þessa uppskrift fann ég á blogsíðunni hennar Soffíu Gísla, prófaði hana og fannst hún hreint frábær.  Ég mæli eindregið með að þið horfið á þetta myndband um gerð Roti flatbrauðs, þá sjáið þið hversu auðvelt þetta er og bráðskemmtilegt.
Eins og sjá má í uppskriftinni eru þetta einstaklega ódý matur og að sama skapi góður.  Brauðin má baka á grilli, pönnu og í ofni. 

Ég bý til eigin pizza sósu, nota gjarnan saxaða tómata úr dós, sigta þá mesta vökvann frá, set pressaðan hvítlauk saman við, smá af soyasósu og tómatsósu til að gera sósuna sæta. 
Sem fyllingu nota ég pepperoni, rauðlauk og papriku eða skinku, tómata, papriku, og ananas, ost yfir og krydd eftir smekk, annars verður smekkur hvers og eins að ráða.
Flatbrauðin eru afbragðs góð sem brauð með mat en þá eru þau smurð með smjöri.


Roti kökur


hráefni (fyrir 4):
1 bolli hveiti (má nota heilhveiti)
örlítið salt
½ bolli vatn
½  tsk olía

Setjið hveiti og salt í skál, blandið volga vatninu saman við og hnoðið síðan þar til deigið er mjúkt og létt.
Skiptið deiginu í um það bil 8 hluta (á stærð við lítinn bolta), fletjið létt með höndunum, veltið upp úr hveiti og fletjið út í þunnar kökur. 
Ef deigið festist við hendurnar er olíu strokið á deigið og lófann, þá er auðveldara að hnoða það og fletja út.
Bakið á grilli eða pönnu í nokkrar mínútur, snúið þeim til að þau brenni ekki. 
Brauðin blása upp og verða hol að innan, þrýstið létt ofan á þau með steikarspaða.  Takið af grillinu / pönnunni, smyrjið með pizza sósu, setjið fyllingu á og ost yfir. 
Setjið aftur á grillið / pönnuna þar til osturinn er bráðnaður.


Roti kökur


Flatkökur

Hér á árum áður, þegar ég var að alast upp í föðurhúsum, var ekki það brauðúrval sem nú er, ég man eftir fransbrauði, sem mér fannst afbragðsgott nýbakað og rúgbrauði kallað hverabrauð, sem var sælgæti lagt saman með fransbrauði og miklu smjöri á milli og normalbrauði og það var eiginlega allt og sumt, en samt alveg nóg.  Þá bökuðu konur með kaffinu, kökur og brauðmeti, jólakökur, randalínur og flatkökur, gjarnan einu sinni í viku og sumar oftar. 
Ég hef nú ekki hugsað mér að taka upp þann sið að baka einu sinni í viku, af og til verður að duga.

flatkökur



Flatkökur (6-8 stk)

200 gr rúgmjöl
100 gr heilhveiti
½ tsk. lyftiduft
½ tsk salt
2 ½ - 3 dl sjóðandi vatn

Rúgmjöl, heilhveiti, lyftiduft og salt hrært saman.  Sjóðheitu vatni hrært út í smám saman, þar til unnt er að hnoða deig sem er létt og sprungulaust og klessist ekki við.  Deigið er hnoðað vel saman og síðan skipt í bita sem flattir eru út þar til þeir eru um 2 mm að þykkt. 
Kökur eru skornar undan diski eða pottloki; þær þurfa að vera álíka stórar og pannan eða eldavélahellan.  Pikkaðar með gaffli.  Pannan eða eldavélahellan hituð og kökurnar bakaðar við góðan hita þar til komnir eru svartir flekkir neðan á þær, þá snúið við og bakaðir á hinni hliðinni.  Settar heitar í plastpoka eða vafðar inn í blautt stykki, annars  þorna þær strax og harðna.

Ef farið er nákvæmlega eftir þessari uppskrift og notaðir 3 dl af vatni þá verður deigið létt og sprungulaust og klessist ekki.
Ég baka kökurnar á pönnukökupönnu úr stáli, þær koma ekki síður út en ef þær eru bakaðar á hellu og lítill vandi er að þrífa pönnuna eftir baksturinn.
Ég nota einnig pottlok með loftgati, til að skera út kökurnar.  Loftgatið gerir það að verkum að kökurnar losna auðveldlega frá lokinu og þær verða allar jafnar og örlítið minni en pannan. 

Plokkfiskur

Plokkfiskur hefur alltaf verið hluti af mínu daglega lífi, þetta var maturinn sem ég borðaði sem barn og er maturinn sem ég hef á borðum enn í dag, yfirleitt á mánudögum til skiptis við saltfisk og sunnudags afganga. 
Þó ég gefi upp mælieiningar á hráefnið þá fer ég yfirleitt ekki eftir þeim, heldur set smjörklípu í pott og bræði, hræri það í bollu með slatta af hveiti, þynni út með fiskisoðinu frá fisknum og síðan mjólk þar til ég hef fengið mjúka, hæfilega þykka sósu til að setja í fisk og kartöflur. 

Plokkfiskur


hráefni (fyrir 4):
400 gr ýsuflök, roðflett
400 gr. kartöflur, smáar
1 laukur, saxaður
2 dl fiskisoð
2 dl mjólk
1 dl rjómi (má sleppa)
50 gr smjör
40 gr hveiti
salt
pipar

Ég sýð fiskinn í 5-10 mínútur í litlu saltvatni. 
Kartöflur soðnar og afhýddar. 
Smjör brætt í potti, hveiti sett saman við og hrært í bollu, bollan þynnt út smám saman, fyrst með soðinu og síðan mjólkinni.  Þar sem fiskurinn er saltaður við suðu og soðið því salt er ekki sett salt í sósuna, einungis pipar.
Þegar sósan er tilbúin fiskurinn settur saman við ásamt kartöflunum.  Ég hef fiskinn grófskorinn fyrir þá sem vilja hafa hann þannig, hinir geta stappað honum saman við sósuna.  Ef kartöflurnar eru stórar er betra að skera þær í bita, á stærð við smælki.
Laukurinn er saxaður og léttbrúnaður á pönnu, áður en hann er settur saman við sósuna.
Borið fram með seiddu rúgbrauði og smjöri.


Páskalamb

Á páskadag hef ég alltaf lambalæri að hætti mömmu.  Það þýðir að lærið er steikt svo lengi að það dettur nánast af beinunum og þarf varla að tyggja.  Algjört sælgæti.


lambalæri


hráefni:
2 kg lambalæri
salt
pipar
Lamb Islandia (frá Pottagöldrum)
smjör (til að smyrja steikarpottinn)

Lærið nuddað upp úr salti, pipar og lambakryddinu, sett í smurðan steikapott.  Potturinn settur í 200°C heitan ofninn og lærið eldað í tvo til þrjá tíma.


sósa:
soðið frá kjötinu
sósujafnari, brúnn frá Maixena
rjómi

Soðið frá kjötinu þynnt örlítið með vatni, aðallega til að minnka fitumagnið.  Þykkt með brúnu sósuþykkni frá Maizena.  Rjóma blandað saman við eftir smekk hvers og eins.  Má bragðbæta með Oscar lambakrafti.
Ég vil hafa sósuna einfalda og helst lítið sem ekkert kryddaða umfram það sem kemur í soðinu frá kjötinu.


kartöflur sykurbrúnaðar:
kartöflur
smjör
strásykur

Sjóðið kartöflurnar og afhýðið, setjið í skál með köldu vatni.  Bræðið smjör á pönnu og stráið strásykri yfir áður en smjörið fer að brúnast.  Hrærið af og til þar til sykurinn fer að brúnast, lækkið þá hitann og hrærið vel í, gætið þess að sykurinn brenni ekki.  Þegar sykurinn er hæfilega brúnn að ykkar mati, hellið þá vatninu af kartöflunum og setjið út í sykurinn.  Gætið þess að vatnið á kartöflunum fær sykurinn til að frussa svolítið, svo betra er að standa ekki of nálægt.

Borið fram með grænmeti, sjálf nota ég brokkoli, blómkál og gulrætur með kjötinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband