12.8.2010 | 11:09
Efnisyfirlit
Þar sem uppskriftirnar eru orðnar svo margar og erfitt að finna einhverja tiltekna uppskrift sem mann vantar, og þar sem ég nota þessar uppskriftir sjálf, af og til, ákvað ég að gera efnisyfirlit yfir innihald síðunnar.
Eins og þið sjáið þá setja ég uppskriftirnar í flokka sem ég raða í stafrófsröð og síðan raða ég uppskriftunum í stafrófsröð innan flokkanna. Ég set tengil við efnisyfirlitið hér til vinstri á síðunni svo auðvelt sé að nálgast efnisyfirlitið þegar fleiri uppskriftir koma hér inn. Þetta ætti að auðvelda mér og ykkur að finna það sem við leitum að.
Matur og drykkur | Breytt 24.8.2012 kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2010 | 11:21
Krækiberjakrap
Þegar ég var lítil stelpa fannst mér afskaplega gaman að horfa á konurnar í lífi mínu búa til saft úr krækiberjunum. Þær suðu berin í heljarstórum pottum, strekktu dúk yfir annað ílát og létu safann renna þar í gegn til að sigta hratið frá áður en lögurinn var settur á flöskur. Ilmurinn var dásamlegur sem og saftin sem maður fékk að dreypa á eða borða út á grauta allan veturinn.
Ég get ekki hugsað mér að láta sumarið líða án þess að sanka að mér þessu dásamlega hráefni til að sjóða niður, frysta og geyma til vetrarins, þegar sól er lágt á lofti og kroppurinn í þörf fyrir vítamínin sem náttúran býr til handa honum.
Ég þekki einungis fjórar aðferðir til að meðhöndla krækiberjauppskeruna, að stýfa hana úr hnefa, safta berin og sulta og loks búa til krap. Ég vel krapið, bæði vegna þess að það er svo hentugur geymslumáti og auk þess finnst mér það svo gott.
Það er líka gott að heilfrysta eitthvað af berjunum til að sjóða í sultu eftir þörfum.
Hráefni:
1 lítri krækiberjasaft
1 sítróna
150-200 gr sykur
Berin eru sett í blandara og maukuð, síðan hellt í gegnum sigti, pressað vel til að ná út þeim öllum safanum, sem er settur í pott. Kreistið safann úr sítrónunni og setjið saman við löginn ásamt sykrinum.
Látið sjóða rösklega upp á leginum og malla í 10 mín, hellið honum í mjólkurfernur eða fernur undan ávaxtasafa, sem búið er að þrífa vel. Látið safann kólna lítillega áður en þið setjið hann inn í frysti. Hrærið af og til í leginum á meðan hann er að frjósa.
Við hrærum í saftinni á meðan hún er að frjósa til að brjóta ískristalana, þeir verða að vera smáir til að mynda krap, annars verður saftin bara einn stór ísklumpur. Ef þið setjið saftina inn áður en þið farið að sofa þá er hún byrjuð að frosna morguninn eftir og þá þarf að hræra í og svo af og til þar til krapið er tilbúið. Þið sjáið hvenær ykkur finnst það hæfilegt og þá helst það þannig.
Uppskriftin gerir ráð fyrir einum lítra af safa svo menn verða bara að umreikna miðað við það magn sem þeir hafa
Ég hef bæði notað berjapressu og blandara til að ná safanum úr berjunum og finnst blandarinn þrifalegri.
Það er afar misjafnt hversu mikið sykurmagn menn nota, hef séð tölur allt frá 150 gr upp í 400 gr. Það er vel hægt að nota önnur sætuefni, eins og t.d. döðlur, sem gefa afbragðs gott bragð. Sjálf fer ég gömlu leiðina og nota strásykurinn.
Um að gera að smakka og finna út hvað hverjum og einum hugnast best.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2010 | 11:39
Graslaukur
Það má sjá graslauk víða í görðum fólks. Margir láta sér nægja að hafa hann til skrauts eða nota hann sem myndefni. En graslaukur er ekki bara fallegur og myndvænn heldur og vel ætur og þá blómin með talin.
Ég hef tekið efti því í sumar að margir sem nýta laukinn, nýta ekki blómin, henda þeim jafnvel. Blómin eru afar bragðgóð, svolítið sætari en laukurinn sjálfur en samt gott laukbragð af þeim og því engin ástæða að henda þeim.
Prófið að taka eitt lítið blóm og smakka. Það kemur á óvart.
Blómin má nota hrá í salatið eða þurrka sem krydd.
Ég þurrka blómin í venjulegum grisjupoka sem fæst í öllum matvöruverslunum, til notkunar undir smástykki, sem ekki eiga að týnast í þvottavélinni.
Ég hengi pokan út á svalir eða á grein á einhverjum runnanum í garðinum og læt vindinn um að þurrka þau. Síðan set ég þau í krukku til síðari notkunar. Það má líka þurrka blómin við vægan hita í ofni.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2010 | 08:43
Rabarbarabaka með jarðaberjum
Fór í veislu þar sem éftirrétturinn var baka fyllt með rabarbara og jarðaberjum. Afskaplega gott. Skráði niður uppskriftina til að geta sett hana hér inn.
800 gr rabarbari
500 gr hindber (frosin) eða jarðaber
60-80 gr púðursykur
mulningur:
100 gr möndlur (malaðar)
100 gr hveiti
80 gr strásykur
100 gr smjör
½ tsk kanill
Allt hráefnið mulið saman og því dreift yfir fyllinguna.
Bakað í ofni við 180°C í 40 mín.
Ef berin og/eða rabarbarinn eru frosin þá er um tvennt að velja, annarsvegar að láta þau þiðna fyrir bakstur svo hægt sé að fjarlægja sem mest af vökvanum sem kemur frá þeim og hins vegar að setja þau frosin í bökuna og þá lengja baksturstímann.
Mér finnast jarðaber betri en hindber svo ég nota þau.
Matur og drykkur | Breytt 12.8.2010 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.6.2010 | 11:20
Rauðmagi á ýmsa vegu
Tengdasonur nr. 1 hringdi, honum hafði áskotnast nokkrir rauðmagar, glænýir, beint úr hafinu.
Ég er ekki mikil rauðmagakona, en ég er hefðarkona þegar kemur að mat og þar sem rauðmaginn er fyrsti vorboðinn hér á landi þá höfum við haft þann sið að hafa hann á borðum þegar hann kemur í verslanir fyrst á vorin.
Við slógum upp rauðmagaveislu. Ég fór hefðarleiðina, valdi að hafa hrogn og reyktan rauðmaga í forrétt og gamaldags soðinn í aðalrétt.
Þau eru ung og djörf, miklir matgæðingar og enn að móta sínar eigin hefðir, svo þau gerðu þrjár nýjungar, fyrst settu þau fisk á panini grill, síðan ofnbökuðu þau fisk og loks elduðu þau fisk í sítrónusafa.
Hvernig væri nú að gerast þjóðlegur og prófa þetta annars ágæta hráefni.
Forréttir:
hrogn:
hrognkelsahrogn
snittubrauð
smjör / olía
Snittubrauðið skorið niður, nuddað með hvítlauk og smjöri og sett á panini grill smá stund. Hrognin sett í hrúgu á smábrauðin.
reyktur rauðmagi:
reyktur rauðmagi
1 rauðlaukur
1 gulrót
rúgbrauð
smjör
Rauðmaginn skorinn í þunnar sneiðar. Rauðlaukurinn maukaður í matvinnsluvél ásamt gulrótinni (ég skar lauk og gulrót í smábita og maukaði með töfrasprota). Brauðið smurt með smjöri, rauðlauksmaukið sett ofan á og síðan reyktu rauðmagi.
Aðalréttir:
soðinn rauðmagi:
2 rauðmagar
1 lárviðarlauf
8 piparkorn
1 msk borðedik
salt
Sjóðandi vatni helt á rauðmagahveljuna, hún skafin vel, allir gaddarnir skafnir af. Ef ekki á að borða hveljuna með er hún rifin af (við notuðum ekki hveljuna). Rauðmaginn skorinn í fremur þunnar sneiðar. Vatn hitað í stórum potti, lárviðarlauf, piparkorn, edik og salt sett út í og látið sjóða í nokkra mínútur. Rauðmagasneiðarnar settar út í og látnar sjóða við vægan hita í 6-8 mínútur, eftir þykkt. Fiskurinn borinn fram með sítrónubátum og/eða ediki og soðnum kartöflum.
Uppskriftir ungu skötuhjúanna koma væntanlega inn á matarblogg Soffíu, ég get sagt ykkur undan of ofan hvernig þær litu út. Annars ættu myndirnar að tala sínu máli.
Slóðin á vefinn Soffíu er hér.
Tvö fiskstykki voru marineruð og sett á panini grill ásamt niðursneiddri papriku, þau voru síðan skorið í litla bita og sett á tortilla kökur ásamt rauðlauk, olíu og ýmsu kryddi. Fiski var pakkað inn í álpappír rásamt rauðlauk, olíu og kryddi, bakaður í ofni og borinn fram með sítrónu, papriku og kartöflum. Og loks var fiskur nuddaður upp úr kryddi, þakin sítrónusafa, settur í kæli þar sem hann var látinn marinerast.
Það er ekki hægt að segja að einn réttur hafi verið öðrum betri, þeir voru svo ólíkir og allir góðir.
Sítróna er hins vegar alveg ómissandi með rauðmaga.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2010 | 17:11
Ostaskonsur
Þessa uppskrift set ég inn fyrir Þráin Jökul Elísson en hann bað mig um að liðsinna sér við skonsubakstur.
Ég gleymi oft að skoða í gestabókina svo ef ykkur vantar nánari upplýsingar eða aðstoð, sendið mér þá t-póst á netfangið ingahel@hotmail.com.
4 dl hveiti
4 dl heilhveiti
4 msk strásykur
6 tsk lyftiduft
2 dl ostur
1 tsk salt
3 egg
4 dl mjólk
5 msk olía eða bráðið smjör
Aðferð
Þurrefnum blandað saman í skál, bragðsterkur ostur rifinn og blandað saman við. Olía, egg og mjólk hrært saman við uns deigið verður kekkjalaust. Hafið deigið ekki of þykkt, það má gjarnan renna smá.
Það má hvort heldur er baka skonsurnar í ofni eða á pönnu.
Í ofni; setjið deigið á bökunarplötu með skeið og bakið í ofni við 225°C í 15 mín, fylgist með bakstrinum svo kökurnar verði ekki of dökkar.
Á pönnu; steikið á pönnukökupönnu, sumir baka fyrri hliðina þar til seinni hliðin er nánast þurr og snúa kökunum þá og baka til fulls, ég sný þeim af og til svo ég geti fylgst með að þær verði ekki of dökkar.
Borið fram með marmelaði, osti, grænmeti eða öðru góðgæti.
Uppskriftin sem ég nota er sambland frá gamalli matreiðslubók sem ég fékk hjá henni tengdsmömmu og allskonar öðrum öðrum uppskriftum sem ég hef fengið hjá vinkonum, úr bókum eða af veraldarvefnum.
Þetta er frekar stór uppskrift og ég nota báðar aðferðirnar við baksturinn, ofn og pönnu.
Það þarf ekki að blanda hveiti og heilhveiti, má allt eins nota eingöngu hvítt hveiti.
Ég vil smjör frekar en olíu, um 75 gr af smjöri gera u.þ.b. 5 msk.
Ég notaði 1 dl af kotasælu og 1 dl af Gouda (sterkum) í þetta sinn.
Ég set hluta deigsins í smá hrúgu á bökunarpappír á bökunarplötu og svo í ofninn. Bæti síðan tæpum dl af mjólk við restina og baka á pönnunni, deigið rennur betur ef ég þynni það.
Eins og sjá má á myndum er munur á skonsum úr ofni og af pönnu. Það er samt ekki hægt að segja að önnur sé betri en hinn, þær eru báðar góðar. Ég sker ofnbökuðu skonsurnar í sundur og set á þær smjör, ost og marmelaði, en það má alveg borða þær án alls.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2010 | 20:05
Mozzarella brauð
Það skiptir ekki öllu máli hvaða brauð er notað, nota gjarnan venjulegt samlokubrauð.
Ég set ost á tvær sneiðar og legg þær síðan saman með ost ofan á og á milli.
hráefni (fyrir 4):
4 brauðsneiðar ca. 2 cm þykkar
4 msk ólífuolía
1 hvítlauksrif
2 Mozzarella-kúlur, skornar í þunnar sneiðar
kínakál
jöklasalat
2 msk ólífuolía fyrir salatið
½ krukka kirsuberjatómatar í ólífuolíu skornir í tvennt
½ askja af ferskum kirsuberjatómötum, skornir í fjóra hluta
balsamgljái
salt
pipar nýmalaður
Hitið ofninn í 200°C. Hellið ½ msk af ólífuolíu á hvert brauð og nuddið hvítlauknum ofan í brauðið. Grillið brauðið í tæplega 5 mínútur.
Raðið mozzarella-ostinum ofan á brauðið og setjið það aftur inn í ofninn og grillið þar til osturinn er bráðnaður.
Veltið kínakálinu og jöklasalatinu upp úr ólífuolíunni og setjið það á fjóra diska.
Raðið brauðsneiðunum ofan á og skiptið tómötunum jafnt á milli diskanna.
Sprautið u.þ.b. 1 msk af balsamgljáa yfir hvern rétt og kryddið með salti og pipar.
Ég á ekki alltaf balsamgljáa og sleppi honum því iðulega. Það má allt eins nota venjulega tómata í stað kirsuberjatómata. Svo er bara um að gera að skipta út hráefninu og prófa eitthvað alveg nýtt.
10.6.2010 | 14:02
Tómat karríréttur - Karlamatur
Þetta er einn af þeim réttum sem eru sívinsælir á mínu heimili. Ég fann uppskrifitna í bæklingi sem ég hirti úti í búð, þar heitir hann Tómat karríréttur en á mínu heimili fékk hann heitið Karlamatur.
Ég nota 4 bita af lambaframhrygg með beini í þennan rétt, þar sem beinin gefa aukin kraft í sósuna og karrímaukið sem ég nota heitir Mild Curry Paste frá Raja..
Þetta er kraftmikill og góður réttur sem hentar vel á köldum dögum, eða þegar mann vantar smá kraft í kroppinn.
hráefni (fyrir4):
7-800 gr beinlaust lambakjöt, t.d. læri eða framhryggur
2 msk olía
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2-3 cm bútur af engifer, saxaður smátt
3 msk rautt indversk karrímauk (einnig má nota 2 msk karríduft)
salt
1 dós tómatar, grófsaxaðir
1 rauð og 1 græn paprika, fræhreinsaðar og skornar í bita
150 ml kókosmjólk
Kjöbitarnir eru skornir í tvennt. Olían hituð í potti og laukurinn látinn krauma í henna í nokkrar mínútur. Hvítlauki og engifer bætt út í og steikt í u.þ.b. 2 mínútur til viðbótar. Þá er karrímauki og salti bætt saman við, látið malla í nokkrar mínútur og hrært í á meðan. Kjötið sett út í og hrært vel. Tómötunum bætt í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, hitinn hækkaður og þegar sýður er hann lækkaður aftur og látið malla í 10-15 mínútur. Þá er paprika og kókosmjólk hrært saman við, lok sett á pottinn og látið malla við vægan hita í um 1 klst. Hrært öðru hverju og svolítið vatni bætt við ef uppgufun verður mikil svo sósan brenni ekki við. Borið fram með hrísgrjónum og salati.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2010 | 20:33
Indónesísk karríhrísgrjón með kjúklingi
Einhverju sinni gaf ég bóndanum Wok-pönnu í jólagjöf ásamt uppskriftarbók frá versluninni Nóatún. Síðan þá höfum við iðulega Wok-rétti á borðum, einkum þó um sumartímann þar sem þessi réttir eru gjarnan léttir. Í dag eldaði ég Indónesísk karríhrísgrjón með kjúklingi.
hráefni (fyrir 4):
200 gr kjúklingabringur
1 msk hunang
3 msk sojasósa
2 msk karri
1 msk tómatsósa
1 tsk maissterkja (maízenamjöl)
2 stönglar sítrónugras (má sleppa)
1 knippi vorlaukar
1 rauð paprika
2 hvítlauksrif
1 rauð eldpaprika/chili (má sleppa)
4 msk sesamolía (má nota ólívuolíu eða hvaða aðra olíu sem er)
100 gr soðin hrísgrjón
Undirbúningur:
Skolið kjöti í köldu vatni, þerrið það og skerið í mjóar ræmur.
Búið til kryddlög úr hunangi, sojasósu, 1 msk karrí, tómatsósu og maíssterkju. Blandið saman við kjötið og látið standa í 15 mínútur.
Skolið sítrónugrasið, kljúfið stilkana í tvennt og skerið helmingana síðan í fína hálfhringi. Hreinsið og skolið vorlaukinn og skerið hann í 1-2 cm stykki. Hreinsið og skolið paprikuna og skerið í litla teninga.
Hreinsið hvítlaukinn og saxið smátt. Skolið eldpaprikuna, fjarlægið kjarnana og skerið í mjög fínar ræmur.
Hitið wokpönnuna og hellið olíunni í hana. Steikið kjötið. Bætið lauk, papriku og sítrónugrasi út í og steikið stuttlega. Setjið hvítlauk og eldpapriku út í. Hrærið köldum hrísgrjónunum saman við og steikið í 3 mínútur. Blandið að lokum afganginum af karríinu vel saman við.
Ég sleppi gjarnan sítrónugrasinu þar sem mér finnst ekki muna svo mikið um það. Ég sleppi einnig eldpaprikunni (chilíinu) þar sem hún gerir réttinn of sterkan fyrir minn smekk.
Ef menn vilja síður kjöt má nota banana í stað kjúklings. En þá á einungis að nota helminginn af kryddleginum og steika bananana mjög stutt.
Ég set lítið af kjöti í einu í botninn á pönnunni, steiki það á báðum hliðum og ýti svo upp á hliðarnar þar sem það heldur áfram að eldast, þegar allt kjötið er steikt, set ég allt grænmetið á pönnuna og læt það steikjast smá stund áður en ég blanda hrísgrjónunum saman við.
Margir gætu haldið að 200 gr af kjúklingi sé of lítið en trúið mér það er alveg nóg í þennan rétt.
27.4.2010 | 09:17
Svínalundir í rjómasósu
hráefni (fyrir 4):
500 gr svínalund
250 gr sveppir
1 dós spergill (Asparagus, langir)
2 msk tómatkraftur
2½ dl rjómi
1-2 dl vökvi frá spergildósinni
salt
pipar
smjör til steikingar
Svínalundin skorin í sneiðar sem barðar eru létt út í lítil buff, saltað og piprað. Buffin steikt í smjöri á pönnu þar til þau eru gullinbrún, þá sett í eldfast fat.
Sveppirnir skornir í sneiða og brúnaði í smjöri á pönnunni, smá salti stráð yfir, og þeir síðan settir í fatið hjá buffunum. Spergillinn er lagður ofan á sveppina.
Vökvanum frá sperglinum helt á pönnuna smám saman og soðið upp á steikarskófinni, látið magn vökvans ráðast af hversu sterkt soðið verður þannig að það verði ekki of þunnt. Tómatkraftur hrærður saman við vökvan og síðan rjóminn. Sósan á að verða fallega bleik. Sósunni er helt yfir buffin og fatið sett í 200°C heitan ofninn í 30 mín.
Borið fram með hrísgrjónum.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)