Sveitakæfa

Eins og ég sagði hér að framan þá fengum við sveitakæfu í stað steikta fisksins á föstudaginn langa.  Ég hvet ykkur eindregið til að skoða upprunalegu uppskriftina ásamt uppskriftina af sósunni hér

sveitakæfa


Þetta var afbragðsgóður matur sem ég á örugglega eftir að prófa aftur.  En þá mun ég gera minni uppskrift, þarf þó að duga í tvær máltíðir og smá afgang.

hráefni (fyrir 2-3):
200 gr svínahakk
125 gr svínalifur
75 gr spekk
50 gr beikon
½ laukur
½ dl haframjöl
1 egg
1 dl rjómi
½ msk hveiti
dreitil koníak (má sleppa)
salt
pipar
timian
1 hvítlauksrif pressað

Kjötkaupmaðurinn (í Melabúðinni) tekur að sér að hakka hráefnið fyrir mig. 
Blandið öllu vel saman nema beikoninu. Setjið í eldfast fat eða álform, og hyljið með beikonræmunum. Bakað við 200-220°C (160-180°C í blástursofni) í vatnsbaði í 1 til 1½ tíma.

Fyrsta máltíðin mun vera heit kæfa, með sveppasósu, sýrðum gúrkum, rauðrófum og rúgbrauði, nákvæmlega eins og sú sem við fengum á föstudaginn langa. 
Önnur máltíðin mun vera kæfan sneidd í hæfilega þykkar sneiðar, steikt á pönnu og borin fram með hrásalati. 
Restina mun ég síðan nota sem álegg á brauð, borið fram með rifsberjahlaupi og súrum gúrkum.


Steiktur fiskur

Á föstudaginn langa hef ég, trúlaus konan, alltaf haft steiktan fisk í matinn og það er einföld ástæða fyrir því. 
Þegar Jesú var tekinn niður af krossinum fór hann og hitti strákana, félaga sína, þeir urðu að vonum hræddir, héldu að þarna væri kominn draugur.  Hann sagði þeim að engin ástæða væri til að óttast þar sem hann væri af holdi og blóði líkt og þeir sjálfir og bauð þeim að snerta sig til að finna það sjálfir.  Þegar þeir snertu hann fundu þeir að hann sagði satt.  Hann spurði þá hvort þeir ættu eitthvað að borða, hann væri svangur og þeir gáfu honum steiktan fisk og hann át hann allan.
Svo það hefur verið sjálfsagt val að borða steiktan fisk á mínu heimili á þessum annars ágæta degi.
Og þannig hefur það verið frá því fyrir 40 árum að ég stofnaði heimili.  Alveg þar til nú að börnin eru orðin nógu gömul til að gera hallarbyltingu og leiða inn nýja siði.  Í þetta sinn fékk ég sveitapaté eða sveitakæfu með öllu tilheyrandi.
Þið fáið uppskriftina af því síðar en nú ætla ég að setja inn gömlu uppskriftina mína af steikta fiskinum.

Doritos


Í fyrstu var um venjulegan steiktan fisk að ræða, í eggi og raspi og með steiktum lauk.  En síðan voru gerðar margar tilraunir og uppskriftirnar breyttust smám saman.  Það eina sem hélt sér óbreytt öll árin var fiskur og steiktur.

hráefni (fyrir 4):
2 ýsuflök meðalstór
2 egg þeytt saman með gaffli
rasp
doritos flögur (american)
laukur
smjör
olía
pipar

Laukurinn steiktur í smjöri og olíu á pönnu og settur til hliðar.  Doritos flögurnar muldar út í raspið, magn fer eftir smekk hvers og eins.  Fiskurinn er roðflettur og skorinn í bita.  Piprað lítillega.  Fisknum velt upp úr hrærðu eggjunum og síðan upp úr raspblöndunni.  Steikt í smjöri og olíu á pönnu.  Gætið þess að nota ekki salt, Doritos flögurnar sjá um að salta.
Ef fáir eru í mat þá set ég laukinn yfir fiskinn ásamt afganginum af eggjunum og fullsteiki fiskinn á pönnunni.  Ef við erum mörg, 6-10+ þá snöggsteiki ég fiskinn á pönnunni og set hann síðan í ofnfast fat ásamt steikta lauknum og egginu, sem ég er búin að bregða á pönnuna, og baka í 180°C heitum ofni í 15-20 mín.

Borið fram með soðnum kartöflum og hrásalati að smekk hvers og eins. 


Hreindýrasteik

Ég er hefðarkona þegar kemur að mat.  Sérhver hátíðisdagur á sinn rétt og frá því verður helst ekki vikið.
Á Skírdag er alltaf léttur kjötréttur, hreint kjöt, sem íslensk jörð hefur alið af sér.
Í gær var Skírdagur og eins og vant er skyldi maturinn vera kjöt, magur vöðvi, léttsteiktur og bakaður, borinn fram með grænmeti og sósu.  Með því að brúna kjötið fyrst og baka síðan í stutta stund verður kjötið mjúkt og safaríkt. 
Þar sem ég er svo lánsöm að eiga börn sem eru lagtæk til veiða, hvort heldur er sjávarfang eða landdýr, áskotnaðist mér hreindýravöðvi sem notaður var í tilefni dagsins.

Hreindýravöðvi


hráefni:
700 gr hreindýravöðvi
smjör til steikingar
salt
pipar

Salti og pipar er nuddað í vöðvann.  Kjötið brúnað í smjöri á pönnu, sett í eldfast fat og bakað í ofni við 200°C í 15-20 mín. eftir stærð vöðvans.  Kjötið tekið út úr ofninum og látið standa um stund áður en það er sneitt niður í hæfilega þykkar sneiðar.

sósan:
soð af kjötinu
rauðvín

Þegar búið er að brúna kjötið á pönnunni er vatni helt á pönnuna til að ná upp steikarskáninni.  Gætið þess að setja ekki of mikið vatn þá verður soðið kraftminna.  Geymið soðið í skál þar til kjötið er bakað takið þá soðið sem komið hefur úr kjötinu við baksturinn og setjið saman við soðið frá pönnunni.
Sjóðið upp á kjötkraftinum, bragðbætið með rauðvíni og kryddi ef þarf.


meðlæti:
blómkál
brokkoli
rósakál (frosið í poka)
gulrætur

Brokkoli- og blómkálshríslur, skornar í hæfilega bita ásamt gulrótunum, sett í pott ásamt frosnu rósakálinu og suðan látin koma upp, þá er grænmetið sett í eldfast fat salti stráð yfir og bakað í 200°C heitum ofninum með kjötinu í 15-20 mín.   Ég nota sér fat fyrir grænmetið.


Skírdagur


Kornbrauð

Eina brauðið sem ég baka er Kornbrauð.  Ég fékk fyrstu uppskriftina af því senda frá frænku minni, síðar sá ég hana í uppskriftabók Hagkaups og reyndar víða á veraldarvefnum.

hráefni:
5 dl speltmjöl
1 dl fjölkornablanda
3 tsk lyftiduft
½ - 1 tsk salt
1 ½ - 2 dl ab-mjólk
1 ½ - 2 dl. sjóðandi heitt vatn

Blandið þurrefnunum saman í skál.  Hellið vökvanum út í og blandið varlega saman.  Á þessu stigi má setja ýmislegt fleira saman við brauðdeigið, eins og sólþurrkaða tómata, gulrætur, hvítlauk eða kryddjurtir.  Setjið deigið í smurt brauðform og bakið í 25-30 mín. við 200°C.


Þetta er auðveldasta og besta brauð sem ég hef baka, held að sjóðandi vatnið geri útslagið.  Deigið er létt í meðförum og þarf ekki hrærivél til að hræra það, sjálf nota ég gaffal til verksins.

Það má nota nánast hvaða mjöl sem er, speltmjöl eitt og sér, blöndu af speltmjöli og hveiti, eða hveiti eitt og sér.  Ég nota það sem til er í skápunum hjá mér hverju sinni og í þetta sinn átti ég afgang af speltmjöli, 2 dl. og blandaði það með 3 dl af hveiti.  Mér finnst speltmjölið samt best bæði hvað varðar gæði og útlit.
Sumir velja að nota vínsteinslyftiduft, ég nota venjulegt lyftiduft.

Í stað fjölkornablöndu má nota sólblómafræ, sesamfræ eða kókosmjöl, nú eða bara búa til sína eigin blöndu. Ég nota fjölkornablöndu frá Líf, bara fyrir kúmenið, en stundum nota ég þriggja korna blöndu fyrir þá sem vilja ekki kúmen.

Stærðin á kökuforminu sem ég nota fyrir þessa uppskrift er, lengd 18 cm, breidd 8 cm og hæð 7 cm.

Kornbrauð



Pasta

Fyrst ég er búin að setja inn uppskrift af ítölskum kjötbollum þá liggur beinast við að setja inn uppskrift af pastanu með bollunum.
Bóndinn fékk forláta pastavél í jólagjöf eitt árið og auðvitað settumst við niður og lærðum á gripinn.  Ég hefði ekki trúað hversu auðvelt það er að búa til pasta hefði ég ekki prófað það sjálf.

hráefni:
1 bolli hveiti
1 egg

Setjið hveiti í skál, búið til laut í hveitið og brjóti eggið ofan í lautina. 
Hrærið eggið saman við hveitið með gaffli og hnoðið deigið síðan þat til það er slétt og mjúkt.
Ef eggið er lítið gæti deigið orðið þurrt, þá er aðeins að bleyta örlítið í því með volgu vatni og hnoða.  Best er að bleyta deigið að utan og hnoða síðan í lófanum.
Hægt er að hnoða hakkað spínat eða krydd í deigið ef vill
Skiptið deiginu í tvennt og rennið einum í einu í gegnum stærsta bilið í pastavélinni, brjótið í tvennt og rennið í gegnum næsta bil og þannig koll af kolli þar til deigið er orðið langt og þunnt.
Rennið síðan lengjunum í gegnum skurðarhnífinn, annað hvort í mjóar spaghetti ræmur eða breiðari pasta ræmur. 
Setjið pastað ofan í sjóðandi vatn og sjóðið í 2 til 3 mínútur. 

pastavél


Megin kostur þess að búa til pasta sjálfur er að pastað er alltaf ferskt, við vitum nákvæmlega hvað það inniheldur og maður getur stýrt magninu.  Trúið mér það er auðveldara en margur heldur.


Ítalskar kjötbollur

Einhverju sinni, þegar börnin mín voru í grunnskóla, komu þau heim úr matreiðslutíma með forláta uppskrift af ítölskum smábollum.  Uppskriftin hefur fylgt mér fram á þennan dag og er oft notuð með alls konar tilbrigðum og tilfærslum.

hráefni (fyrir 4):
400 gr nautahakk
½ pakki púrrulauksúpa
1 egg
1 dl brauðmylsna
2 msk chili sósa (í flösku)
salt
pipar

Allt hráefnið er sett í skál og hrært vel saman, látið standa smástund í ísskáp áður en það er mótað í litlar bollur.
Bollurnar eru annað hvort steiktar í olíu á pönnu eða raðað á bökunarpappír og bakaðar í ofni í 15 til 20 mínútur.
Borið fram með spaghetti og salati.

smábollur


Samkvæmt gömlu uppskriftinni er sósa búin til úr pakka af Toro spaghetti sósudufti, suðan er látin koma upp og bollurnar látnar malla í sósunni um 10 mín.

Ég er löngu búin að breyta sósuuppskriftinni, nota gjarnan tómata úr dós, bragðbæti með tómatsósu (gerir sósunna svolítið sæta) og HP-sósu ásamt öðru kryddi. 
Eða ég bara sleppi algjörlega að gera sósu og nota tómatsósu úr flösku.

Síðar á ævinni tóku þessar bollur margvíslegum breytingum, þær breyttust í partýbollur með því að mylja saman við þær saltkex, þá þarf að sleppa súpunni og saltinu, baka bollurnar í ofni og bera fram með súrsætri sósu. 
Kryddið hefur einnig verið margbreytilegt og helst farið eftir stað og stund og því sem finna má i skápunum mínum þann daginn.
Oft sleppi ég súpunni og bæti við brauðmylsnuna í hennar stað.  Ég bý til mína eigin brauðmylsnu jafnóðum með því að mylja brauðsneið smátt með töfrasprota.

Annars er bara að leggja af stað og gefa sköpunargáfunni lausan tauminn.  Það kemur alltaf eitthvað skemmtilegt út úr því.  Ekki endilega ætt, en alltaf skemmtilegt.


Egg- og ostborgari

 

hamborgari

 Ég held það sé óhætt að segja, og það með sanni, að matur og ég eigi samleið.  Ég veit fátt betra en mat og fátt betra en að borða og það mikið.

 

Hamborgari er aldrei einfaldur, skyndibiti á mínum borðum, heldur vandlega hugsaður gæða matur, blandaður bestu efnum, kryddaður, mótaður, myndaður, eldaður og skreyttur með grænmeti, osti og eggi áður en hann borðaður af bestu lyst.

hráefni (fyrir 4):
400 gr nautahakk
1 egg
4 msk HP sósa eða Worchestersósa
1 laukur (saxaður smátt)
brauðmylsna (handfylli)
salt
pipar

4 sneiðar Ostur
4 egg
2 tómatar
agúrka (sneidd)
jöklasalat

Hráefninu, hakki, eggi, HP-sósu, lauk og brauðmylsnu, blandað vel saman ásamt salti og pipar og látið standa og taka sig inni í ísskáp í u.þ.b hálfa til heila klukkustund áður en því er skipt í fjóra jafna hluta, mótað og pressað og sett á grillið.  Má alveg eins teikja hamborgarann í olíu a pönnu.
Ostur settur ofan á borgarann í lok steikingartímans þar til hann er bráðnaður.
Egg steikt á pönnu. 
Grænmeti og sósur eftir smekk hvers og eins settar á brauðið, borgarinn þar ofan á og loks eggið.

HP sósa er fyrirtaks bragðbætir í ýmsa rétti.  Ég nota hana frekar en aðrar sósur, en það er einungis til minningar um hann pabba minn sem notaði HP-sósu á nánast allan mat, sérstaklega þó fisk.

Ég á forláta hamborgarapressu til að móta og pressa borgarana, gerir þá þéttari og þá um leið auðveldari til steikingar á grillinu, sést fyrir aftan hamborgarann á myndinni.  Ég keypti hana í Duka í Kringlunni, hefur reynst hið mesta þarfaþing.

HP- sósa


Ofnbakaður kjúklingur & 40 hvítlauksrif

Einhverju sinni, þegar ég var að flækjast á milli erlendra sjónvarpsstöðva lenti ég inn á matreiðsluþátt hjá BBC, tveir menn voru þar að elda kjúkling með 40 hvítlauksrifjum.  Mér fannst þetta spennandi réttur en náði ekki uppskriftinni svo ég fór á veraldarvefinn til athuga hvort þessa uppskrift væri ekki einhvers staðar að finna, ég fann margar og meðal annarra eina hjá Ragnari Frey, en ég heimsæki reglulega vefsíðuna hans ef mig vantar eitthvað nýtt og spennandi í matinn. 
Ég hélt í fyrstu að 40 hvítlauksrif væru mistök en þegar svo reyndist ekki hélt ég það væri óþarfa fjöldi.  En trúið mér þau mættu vera fleiri.

Hvítlaukur


Ég hvet ykkur til að skoða síðuna hans Ragnars hann er nákvæmari í sinni framsetningu og er með hugmyndir um meðlæti sem vert er að skoða. 
Þetta er alveg óheyrilega góður réttur. 

hráefni:
heill kjúklingur
½ laukur
½ sítróna
rósmarín
timian (ferskt)
salt
pipar
jómfrúarolía
kjúklingasoð
40 hvítlauksrif


Athugið kjúklingurinn þarf um 30 mínútur lengri tíma en hvítlaukurinn.

Kjúklingurinn er hreinsaður og þurrkaður.
Smávegis af jómfrúarolíu sett í grindarholdið, salt, pipar, hálfur laukur, hálf sítróna, smávegis af rósmaríni og timian.
Kjúklingurinn er nuddaður upp úr jómfrúarolíu og síðan saltaður rækilega og pipraður vel.
Handfylli af fersku timian er sáldrað yfir fuglinn og hann settur inn í ofn 180° C heitan.  Þegar 20-30 mínútur eru liðnar þá er hvítlauknum settur í eldfasta mótið með fuglinum og rétturinn bakaður áfram í um klukkustund eða þar til að hann er tilbúinn.
Þá er fuglinn tekinn úr ofninum og hann lagður til hliðar á meðan sósan er undirbúin.
Rétt áður en kjúklingurinn er tekinn úr ofninum er hálfur lítri af kjúklingasoði útbúið í potti.
Kjúklingurinn er færður á disk og kjúklingasoðinu hellt í skúffuna og soðið upp á því.  Sósan er smökkuð til og söltuð og pipruð eftir smekk. Hún er svo soðinn niður í um 10 mínútur á meðan kjúklingurinn jafnar sig.
Borið fram með salati að eigin smekk.

Athugið, hvítlaukurinn er hafður í hvíta pappírskennda hýðinu sem er utan um hann. 
Hvítlaukur sem er bakaður á þennan hátt verður sætur á bragðið og minnir svolítið á karamellu.

kjúklingur



Hilux tortilla

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum, einfaldur, fljótlegur, afbragðs góður og umfram allt ódýr.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að kaupa kökurnar tilbúnar, fylla þær og baka í ofni.  En það er ekki mikið mál að baka kökurnar sjálfur.

Tortilla kökur (fyrir fjórar):
3 ½ bolli hveiti (1 bolli = 240 gr)
1 tsk salt
½ tsk lyftiduft
7 msk olía
1 bolli vatn (heitt)

Öllu efninu er blandað saman og það hnoðað  í u.þ.b 3 mín.  Deigið sett í skál og látið hefa sig í 15 mínútur á meðan verið er að útbúa grænmeti og annað sem á að fara í kökurnar.
Skiptið deiginu í fjóra hluta (hægt að gera fleiri kökur og smærri).  Deigið flat út og bakað á pönnu.
Kökurnar eru ekki óáþekkar flatkökum og henta því ágætlega til átu einar sér með smjöri.


Hilux Tortilla

Hráefni í fyllingu:
300 gr nautahakk (má nota aðrar tegundir)
1 glas Taco sósa
2-3 stk Tómatar
1 paprika
jöklasalat
laukur, vorlaukur eða púrrulaukur
rifinn ostur (gjarnan afgangsostur úr frysti)
salt
pipar

Hakkið steikt á pönnu, saltað og piprað. Hluti af Taco-sósunni blandað saman við til að binda kjötið.
Grænmetið skorið smátt.
Tortillakökurnar brotnar saman, þær smurðar með helmingnum af Taco sósunni og matnum raðað í, fyrst jöklasalatið, svo tómatar, laukur, paprika og/eða annað grænmeti og loks kjötið.
Rifnum osti stráð yfir.
Kökunum raðað í ofnfast fat, látnar standa frekar en liggja ofan á hver annarri, svo þær verði fallega stökkar.
Sett í 200° heitan ofninn í 5-10 mín eða þar til kökurnar eru orðnar stökkar og ljósbrúnar.
Borið fram með restinni af Taco sósunni, hrásalati og/eða sýrðum rjóma.

Það er alveg sama hvaða kjöt er notað, má allt eins vera kjúklingur í strimlum, svínalund eða annað. 


Svínakótelettur með fetaosti og kúrbít

Ekki man ég hvar ég fékk þessa uppskrift, yfirleitt gúgla ég þegar ég er að leita að einhverju nýju til að elda og stundum finn ég eina eða tvær uppskriftir sem ég síðan blanda saman í eina eða breyti eftir mínu höfði.

En hvaðan sem hún kemur þá er þessi uppskrift er mjög góð og alveg tilvalin að nota þega svínakjötið er á útsölu.

hráefni:
1/2 kúrbítur
4 svínakótelettur
matarolía til að steikja upp úr
salt og pipar
125 gr fetaostur
1-2 hvítlauksrif (ég nota amk 2-3)
1 dl sýrður rjómi
1 tsk basilíkukrydd

Rífið kúrbítinn gróft, stráið salti yfir og látið standa í 10 mínútur. Steikið kóteletturnar í olíu, á vel heitri pönnu, kryddið með salti og pipar og raðið í eldfast mót.
Myljið fetaostinn með gaffli, merjið hvítlauksrifin og hrærið saman við fetaostinn ásamt sýrðum rjóma.  Kreistið vatnið úr kúrbítnum og hrærið hann saman við ásamt basilíku.
Dreifið ostablöndunni yfir kóteletturnar og bakið í ofni við 200°C í 15 mínútur.

Berið fram með grænmeti, t.d soðnu brokkoli, blómkáli og gulrótum eða fersku salati og kartöflum.

Svínakótilettur með kúrbít


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband